Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Átta farþegaþotur væntanlegar til landsins í dag

Fyrsta þota flugfélagsins Delta kom frá Bandaríkjunum að morgni 2. maí 2021 með á annað hundrað farþega.
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir
Viðbúið er að sóttkvíarhótelin tvö í Reykjavík fyllist á næstu dögum en von er átta flugvélum til Keflavíkurflugvallar í dag. Þær áttu að vera níu en flugi Icelandair frá Stokkhólmi hefur verið aflýst. Fyrsta vél Delta frá Bandaríkjunum lenti með á annað hundrað farþega í morgun. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar fagnar fjölgun flugferða til landsins.

 

Áslaug Ellen Yngvadóttir annar umsjónarmanna sóttkvíarhótels við Þórunnartún sagði í samtali við fréttastofu í gær að mögulega þyrfti að bæta við hóteli þegar á mánudag til að mæta þörfinni. 

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir jákvætt hve mörg erlend flugfélög sæki í að fljúga til Íslands, það skapi ný störf áður en langt um líður.

Hann bendir þó á að þótt margar vélar séu á leiðinni til landsins sé ekki sjálfgefið enn að þær séu fullar af farþegum og þannig verði það fyrstu vikurnar. 

„Við vitum það líka að meðan ekki er hægt að hefja þessa venjubundnu flutninga ferðalanga milli Bandaríkja og Evrópu eins og Ísland hefur verði hub fyrir. Vegna ferðatakmarkana mun þetta ekki komast í eðlilegan gang að nýju.“