Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Aldrei séð aðra eins nýtni og á Garðsstöðum

Mynd: Menningin / RÚV

Aldrei séð aðra eins nýtni og á Garðsstöðum

02.05.2021 - 09:30

Höfundar

Heimildarmyndin Góði hirðirinn var frumsýnd í vikunni. Þar fylgist Helga Rakel Rafnsdóttur með Þorbirni Steingrímssyni og fjölskyldu hans á Garðsstöðum í Ísafjarðardjúpi, þar sem hann hefur sankað að sér hundruðum bílhræja.

Garðsstaðir í Ísafjarðardjúpi eru umdeildur staður. Bílhræin eru þyrnir í augum margra sem aka um Djúpið en öðrum finnst nýtnin sem Þorbjörn sýnir vera lofsverð. Helga Rakel er sjálf úr Önundarfirði, skammt frá , og heillaðist af staðnum þegar hún kom þangað. 

„Kannski er það nostalgía vegna þess að ég er alin upp að miklu leyti á sveitabæ sem heitir Hvilft hjá afa mínum og ömmu. Afi var svona safnari þannig að þegar ég kom á Garðsstaði leið mér svolítið eins og heima.“ 

Helgi Rakel segir að það hafi tekið tíma að vinna inn traust Þorbjörns en það hafi þó loks tekist.

„Ég var í 5 ár í tökum. Þetta er ekki viðtalsmynd, ég er bara þarna til þess að fylgjast með og mig langaði bara til að fanga þennan stað og hans bras. Það tók mig tíma að skilja hvernig hann hugsar og hvað hann er að gera, fyrir mér er hann svolítill  sjálfmenntaður verkfræðingur, hann er alltaf að búa eitthvað til. Ég hef aldrei séð nokkra manneskju nýta dót á jafn skemmtilegan hátt og þau gera.“ 

Helga Rakel segir að þótt allir séu ekki sammála um ágæti Garðsstaða og bílagarðsins þar hafi hún ákveðið að fjalla ekki um þá hlið.

„Mig langaði bara til að miðla þessum stað og svo tekur bara hver og einn afstöðu. Það eru líka alls konar siðferðilegar pælingar í kringum þennan stað. Er rusl í lagi svo lengi sem við sjáum það ekki? Hvað er rusl? Hvað gerum við við það? Ef maður stækkar aðeins sjóndeildarhringinn þá snýst þetta ekki bara um hvort hann sé að gera rétt eða rangt heldur hvað við erum að gera og hvað gerum við ruslið okkar.“

Fjallað var um Góða hirðinn í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Var ekki boðið í kaffi fyrr en í þriðju heimsókn