Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Viðbúið að sóttkvíarhótelin fyllist á næstu dögum

01.05.2021 - 14:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Von er á 14 farþegavélum hingað til lands um helgina og hefur umferð um Keflavíkurflugvöll ekki verið jafn mikil síðan í byrjun árs samkvæmt upplýsingum frá Isavia. Viðbúið er að sóttkvíarhótelin í Reykjavík fyllist á næstu dögum.

Vélarnar sem lenda um helgina eru flestar á vegum Icelandair en einnig er von á vélum frá þýska flugfélaginu Lufthansa, spænska félaginu Vueling, ungverska félaginu Wizz Air, lettneska félaginu AirBaltic og bandaríska félaginu Delta.

Áslaug Ellen Yngvadóttir annar umsjónarmanna sóttkvíarhótels við Þórunnartún segir viðbúið að gestum á hótelinu fjölgi hratt á næstu dögum.

„Ég er að búast við 75 til 120 farþegum í dag. Á morgun koma örugglega fleiri en þá er að koma vél frá Póllandi sem er hááhættusvæði og það koma alltaf margir úr þessum vélum til okkar,“ segir Áslaug.

Um 150 herbergi eru nú laus og Áslaug segir að 110 herbergi til viðbótar losni á morgun. Tvö sóttkvíarhótel eru starfandi á höfuðborgarsvæðinu auk farsóttarhússins við Rauðarárstíg. Áslaug segir til skoðunar að opna nýtt hótel á mánudag.

„Þá eru öll flugin komin eftir helgina og þá erum við ekki að fara að tæma húsin fyrr en eftir fimm daga. Það eru alltaf einhverjar vélar að koma á virkum dögum og með þeim þá gætum við fyllt þessi tvö hótel,“ segir Áslaug.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV