Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

SA og SAF fagna aðgerðum stjórnvalda

Mynd: Viðar Hákon Gíslason / RÚV
Aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins virðast við fyrstu sýn koma að góðum notum, segja framkvæmdastjórar bæði Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka atvinnulífsins. Það sé til bóta að breyta hlutabótaleiðinni þannig að hún færist yfir í ráðningarstyrki, það flýti því að fólk komist inn á vinnumarkaðinn aftur

Stjórnvöld kynntu í gær umfangsmiklar aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum og fjölskyldum vegna kórónuveirufaraldursins, en meðal atriða þar er framlenging og útvíkkun viðspyrnustyrkja, frestun á greiðslum og fleira, eins og fram kom í fréttum í gær.

„Við fyrstu sýn virðast þetta vera skynsamlegar aðgerðir. Við þekkjum náttúrlega viðspyrnustyrkina sem nú eru framlengdir og bætt við auka tekjufallsþrepi frá 40 til 60%, sem er mjög mikilvægt fyrir mörg minni fyrirtæki, til dæmis veitingastaði sem til dæmis í fyrrasumar gátu haldið uppi einhverri starfsemi. Við teljum að það sé skynsamlegt að færa fólk úr hlutabótaleið og yfir á ráðningastyrki vegna þess að þá getur fólk unnið 100% vinnu en fyrirtækin fá samt sem áður styrk á móti,“ segir Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Hann segir að það flýti því að fólk komist aftur inn á vinnumarkaðinn og takmarki frekari skaða. Þá segir Jóhannes Þór framlengingu ferðagjafar skipta máli fyrir ferðaþjónustuna og að ferðatryggingasjóður sem eigi að stofna sé af hinu góða, hann bæti úr ákveðnum göllum sem voru á tryggingakerfi ferðaskrifstofa. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins er sáttur við aðgerðirnar.

„Við fyrstu sýn virðist þetta vera nokkuð gott, við eigum auðvitað eftir að fara betur í gegnum þetta með okkar fyrirtækjum á næstu dögum. Þetta er í raun meira af hinu saman og það er það sem þarf. En á sama tíma áttum við okkur öll á því að á einhverjum tímapunkti þyrfti að trappa þessar aðgerðir niður og þetta er svona skref í þá átt,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson.

Halldór er sömu skoðunar og Jóhannes Þór um að rétt hafi verið að breyta hlutabótaleiðinni þannig að hún færist yfir í ráðningarstyrki.

„Við hljótum á endanum að vilja að þetta starfsfólk fari aftur í fullt starf og mér sýnist við fyrstu sýn að þetta styðji við það.“