Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Öllum framkvæmdum við landamæramúrinn hætt

01.05.2021 - 01:20
epa09166677 US President Joe Biden addresses a joint session of Congress, with Vice President Kamala Harris and House Speaker Nancy Pelosi (D-Calif.) sitting behind him, at the Capitol in Washington, DC, USA, 28 April 2021. The speech was Biden's first since taking office in January.  EPA-EFE/MELINA MARA / POOL
 Mynd: EPA-EFE - The Washington Post POOL
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, hefur stöðvað endanlega fyrirhugaðar framkvæmdir við byggingu landamæramúrs á mörkum Bandaríkjanna og Mexíkós, og mun það fé sem ætlað var til framkvæmdanna renna aftur til Bandaríkjahers. Samkvæmt fjölmiðlum vestra nemur fjárhæðin um 14 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði um 1.750 milljarða íslenskra króna.

Þetta er það fé sem Donald Trump sótti í sjóði hersins í gegnum varnarmálaráðuneytið til að fjármagna byggingu múrsins þegar Bandaríkjaþing neitaði að samþykkja umbeðna fjárveitingu til framkvæmdanna og Mexíkóar urðu heldur ekki við kröfu hans um að standa straum af kostnaðinum við þær. Talsmenn Hvíta hússins og varnarmálaráðuneytisins greindu frá þessu í kvöld. 

Tímabundið hlé verður varanlegt stopp

Tilskipun um að gera skyldi tímabundið hlé á framkvæmdunum við landamæramúrinn var eitt af fyrstu embættisverkum Bidens. Það hlé rann út í gær og við tekur varanlegt stopp.

Öllum samningum við birgja og verktaka í tengslum við byggingu múrsins verður rift, samkvæmt tilkynningu yfirvalda. Við taka samningaviðræður við hlutaðeigandi um sanngjarnar bætur fyrir riftunina og málaferli, náist samningar ekki.