Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikill húsnæðiskostnaður og atvinnuleysi áhyggjuefni

Mynd: RÚV / RÚV
Það er mat þriggja verkalýðsforingja sem að eitt brýnasta verkalýðsfélaga sé að vel takist til við innleiðingu styttingar vinnuvikunnar. Í dag gengur stytting vinnuviku vaktavinnufólks í gildi. Fleira brennur þó á verkalýðsforingjunum.

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis, Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður verkalýðsfélagsins Bárunnar og Sandra Frank formaður Sjúkraliðafélags Íslands voru gestir í Vikulokunum í morgun þar sem þau ræddu vítt og breytt um stöðu verkalýðsmála í tilefni baráttudags verkafólks, 1. maí. 

Þau sögðu atvinnuleysi vera mikið áhyggjuefni, misskiptingu launa og háan húsnæðiskostnað sömuleiðis auk þess sem mikilvægt væri að skipta sameiginlegum auðlindum jafnar.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings þeim sem misst hafi vinnuna stefni þó í rétta átt, en betur megi ef duga skuli. 

„Maður hefði vilja sjá markvissari aðgerðir til hjálpar þeim fjölskyldum sem hafa það erfiðast. Þar eru atvinnulausir fremst en hækka þarf atvinnuleysisbæturnar og svo framvegis,“ segir Þórarinn Eyfjörð. 

Halldóra Sigríður hafði á orði að þótt kaupmáttur launa hefði hækkað væru laun tiltekinna starfsstétta mjög lág. „Þau eru alltof lág. Hvaða laun eru svona há? Ég myndi bara vísa því til SA og láta þá svara fyrir það. Ég sé þetta ekki á mínu svæði.“

Sandra Frank formaður Sjúkraliðafélags Íslands sagði einn mikilvægasti þáttinn í afkomu fólks á Íslandi vera mikinn húsnæðiskostnað.

„Og þegar þú ert búinn að greiða af húsnæðinu þínu hvort sem það er leiga eða þú ert að borga af lánum þá er óskaplega lítið eftir í veskinu sem þú þarft að hafa til að lifa.“