Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Leita leiða til að stytta biðtíma atvinnuleysisbóta

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það tekur Vinnumálastofnun almennt fjórar til sex vikur að afgreiða umsóknir um atvinnuleysibætur frá því þær berast. Oft tekur afgreiðslan skemmri tíma, einkum þegar öll gögn fylgja með umsókn, en þó getur dregist að afla gagna.

Þegar atvinnuleysi jókst hratt í landinu frá mars og fram í júlí í fyrra tókst stofnuninni ekki að ná 4 til 6 vikna markmiðinu og jafnvel tók úrvinnsla allt að tíu vikur.

Línurit á mynd sýnir umsóknarfjölda hjá Vinnumálastofnun í hverjum mánuði frá janúar 2020 til og með febrúar 2021.
 Mynd: Félags- og barnamálaráðuneyt
Úrvinnslutími umsókna frá janúar 2020 til og með febrúar 2021

Þetta kemur fram í svari Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, við fyrirspurn Sigurðar Páls Jónssonar, þingmanns Miðflokksins, um greiðslu atvinnuleysisbóta.

Í svarinu kemur fram að hvorki liggi fyrir hjá Vinnumálastofnun né ráðuneytinu hver sé lengsti tíminn sem nokkur hefur þurft að bíða eftir greiðslu atvinnuleysisbóta. 

Þar segir einnig að hafin sé vinna í ráðuneytinu við heildarendurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Með þeirri endurskoðun er áætlað að finna leiðir til að flýta afgreiðslu umsókna um atvinnuleysisbætur.  

Breytingar á núgildandi lögum voru samþykktar í júnílok 2020 sem miða eiga að því að gera framkvæmd þeirra skilvirkari. Þegar í upphafi árs 2020 var starfsfólki fjölgað hjá Vinnumálastofnun, einkum við úrvinnslu umsókna, til að bregðast við vaxandi atvinnuleysi.

Einnig var dregið úr vægi skriflegra vottorða frá vinnuveitendum við útreikning á bótarétti, í samræmi við breytt ákvæði laganna, og þess í stað notast við upplýsingar skattyfirvalda. Mat Vinnumálstofnunar er að það hafi flýtt fyrir afgreiðslu, að því er fram kemur í svari ráðherra.

Jafnframt voru gerðar breytingar á tölvukerfum stofnunarinnar og nú er unnið að smíði nýs kerfis sem búist er við að verði tekið í gagnið síðar á þessu ári. Því er ætlað að flýta fyrir afgreiðslu umsókna og auðvelda allt starf sem tengist atvinnuleysistryggingum.