Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Kantor upp á kant við æðri völd í Hallgrímskirkju

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV

Kantor upp á kant við æðri völd í Hallgrímskirkju

01.05.2021 - 16:56

Höfundar

Hörður Áskelsson kantor og organisti í Hallgrímskirkju í nær 40 ár lætur af störfum í kirkjunni um næstu mánaðamót. Deilur hafa staðið á milli hans og sóknarnefndar kirkjunnar. Hörður segir að hann hafi ekki notið stuðnings yfirvalda í kirkjunni lengur.

Hörður Áskelsson hefur verið organisti og kantor Hallgrímskirkju frá því hann lauk framhaldsnámi í Düsseldorf í Þýskalandi árið 1982. Einar Karl Haraldsson formaður sóknarnefndar Hallgrímskirkju segir í samtali við fréttastofu að skrifað hafi verið undir starfslokasamning við Hörð í vikunni. Honum hafi verið boðinn heiðurssamningur við kirkjuna þegar hann snýr aftur til starfa, en Hörður hefur ekki verið starfandi undanfarið að hans sögn á meðan hann er á listamannalaunum. Einar segir að Hörður hafi ekki geta fallist á þann samning og lagt fram starfslokasamning sem móttilboð. Í heiðurssamningnum hafi falist að Hörður starfaði áfram sem stjórnandi, en ekki sem organisti. 

Hörður segir að ástæður þess séu fyrst og fremst að hans starf hafi ekki notið stuðnings yfirvalda lengur.

„Það er einhver önnur stefna sem þau vilja taka sem ekki er það sama og ég hef verið að gera í 38 ár,“ segir Hörður. Hann segist ekki vita í hverju sú stefnubreyting felist. Listvinafélag Hallgrímskirkju hafi haldið hátt í 60 tónleika á ári og flutt stór og smá kirkjuverk sem hafi fallið að þeirri stefnu sem hann hafi staðið að.

„Nú er nýtt fólk sem ræður og það eru aðrar skoðanir og við eigum ekki samleið lengur. Ég hafði hugsað mér að klára minn starfsferil eftir 2 ár, ég er nú kominn á þennan aldur,“ segir Hörður.

Með brotthvarfi Harðar úr kirkjunni hverfa þeir kórar sem hann hefur stjórnað sömuleiðis. Það eru Mótettukór Hallgrímskirkju og Schola cantorum.  

„Þessir kórar sem ég hef stjórnað hafa verið í miðju þessa starfs, Mótettukór Hallgrímskirkju og Schola cantorum, þeir fara með mér úr kirkjunni, af því að ég á mörg óunnin verkefni þar sem er búið að semja um með þeim kórum sem ekki verður hlaupið frá,“

Og hvað finnst þér um þessi endalok?

„Mér finnst það auðvitað sorglegt en ég er búinn að fá að upplifa svo margt í þessari kirkju. Fengið stuðning og traust í svo langan tíma. Það verður ekki tekið frá okkur. Ég gleðst yfir því og gleðst yfir því að fá að starfa með kórunum mínum þrátt fyrir þetta næstu árin, hversu mörg sem þau verða nú,“ segir Hörður. 

Á heimasíðu Listvinafélags Hallgrímskirkju segir meðal annars að Hörður stofnaði Mótettukór Hallgrímskirkju árið 1982 og kammerkórinn Schola cantorum árið 1996.

„Með kórunum hefur hann flutt flest helstu verk kórbókmenntanna bæði með og án undirleiks. Þá hefur hann stjórnað frumflutningi margra verka fyrir kór og hljómsveit sem íslensk tónskáld hafa skrifað á undanförnum árum. Hörður hefur ásamt kórum sínum tekið þátt í ýmsum tónlistarhátíðum og -keppnum á alþjóðlegum vettvangi, og meðal annars unnið til verðlauna í Cork á Írlandi árið 1996, Noyon í Frakklandi 1998, Gorizia á Ítalíu árið 2002 og á Festival Cancó Mediterrànea 2014. Hörður hefur haldið tónleika í mörgum stærstu kirkjum Evrópu bæði sem kórstjóri og organisti, m.a. í Kölnardómkirkju, Notre Dame og St. Sulpice í París, dómkirkjunum í Frankfurt, Brüssel og Helsinki og Münster í Basel,“ segir á vef Listvinafélagsins.

Einar segir að ekki sé búið að ákveða framhaldið, og hvort auglýst verði eftir nýjum kantor í kirkjuna.  Björn Steinar Sólbergsson sé starfandi organisti og hann hafi aukið starfshlutfall sitt á meðan Hörður hafi ekki verið starfandi við kirkjuna.

Tengdar fréttir

Tónlist

Læti, heimsendir og ringulreið í Hallgrímskirkju

Tónlist

Jóhanns Jóhannssonar minnst í Hallgrímskirkju

Saga úr orgelinu í Hallgrímskirkju