Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jóhannes Þór fagnar framlengingu viðspyrnustyrkja

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar fagnar því að viðspyrnustyrkir til fyrirtækja skuli hafa verið framlengdir. Aðgerðaráætlun stjórnvalda vegna COVID-19 sem kynnt var í gær sé að hans mati í fljótu bragði skynsamleg. Nú sé til dæmis bætt við tekjufallsþrepi. 

„Nú er bætt við tekjufallsþrepi frá 40 til 60% sem er mikilvægt fyrir mörg minni fyrirtæki á borð við veitingastaði, sem til dæmis í fyrrasumar gátu haldið uppi einhverri starfsemi.“ 

Jóhannes segir skynsamlegt að færa fólk úr hlutabótaleið yfir á ráðningarstyrki því þá geti það unnið fulla vinnu en fyrirtækin fá áfram styrk á móti. 

„Ég held að þetta hjálpi til við að koma fólki hraðar inn á vinnumarkaðinn. Það skiptir miklu máli við að lágmarka neikvæð áhrif faraldursins á samfélagið til lengri tíma.“ 

Jóhannes segir auðvitað vera hnökra á áætluninni sem gott væri að slétta úr en hann sakni í raun einskis á þessum tímapunkti. Hann segir jafnframt jákvætt að ákveðið hafi verið að endurtaka ferðagjöfina.  

„Það er afar jákvætt líka og í raun góð hvatning fyrir Íslendinga til að ferðast innanlands. Hún hefur reynst vel og um að gera að hvetja fólk til að nýta þá eldri svo það geti nýtt þá seinni í sumar.“ 

Mikilvægt hafi einnig verið að stofna til ferðatryggingasjóðs sem bæti úr ákveðnum göllum í ljós kom í fyrravor að voru á tryggingakerfi ferðaskrifstofa. 

„Til framtíðar skiptir máli að færa tryggingarnar yfir í samtryggingakerfi, sjóðskerfi sem er líkara því sem gerist í Danmörku,“ segir Jóhannes Þór og að með því séu neytendur betur tryggðir og fyrirtækin þurfi ekki jafnmikla fjárbindingu.

Jóhannes Þór kveðst vonast að nægilega vel gangi að komast af stað núna svo ekki þurfi að grípa til frekari aðgerða. Þó verði að fylgjast gaumgæfilega með hvernig faraldrinum vindur fram enda séu þar breytur sem enginn ráði við.