Haukur og Lilja fjallar um samnefnt par sem er á leið í veislu og er að hafa sig til. Lilja er hins vegar haldinn kvíða og á erfitt með að fara og Haukur þarf að tala um fyrir henni og sannfæra hana um að koma með.
„Við komumst inn í þeirra samband í hversdagslegu spjalli,“ segir Edda Björg Eyjólfsdóttir, sem bæði framleiðir og leikur annað titilhlutverkið á móti Sveini Ólafi Gunnarssyni. „Í gegnum það getum við séð svo margar hliðar á þessu fólki, sem er bara ég og þú. Og það er oft grátbroslegt.“
Haukur og Lilja var skrifað fyrir meira en áratug og flutt í Útvarpsleikhúsinu árið 2009.
„Ég skrifaði þetta um par sem var í ástar- og kynlífsfíkn,“ rifjar Elísabet upp. „En síðan þá er þetta orðið um allt annað. Þetta er bara um ung hjón í vandræðum með sitt líf og sínar sálarflækjur og það byggir líka á því að þau hafa fengið áföll, sem eru að koma upp. Allt í einu springur eitthvað og gefur eftir.“
Edda Björg var að leita að tveggja manna verki fyrir sig og Svein Ólaf þegar hún rakst á Hauk og Lilju. Þau voru byrjuð að vinna verkið þegar Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu kom út og fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin.
„Parið í þeirri bók kallast vel á við Hauk og Lilju,“ segir Edda Björg. „Svo við fleygum svolítið úr bókinni og setjum inn í verkið til að fá meiri djús og kraft og kjöt á beinin.“
Í stað þess að setja verkið upp í hefðbundnu leikhúsrými var ákveðið sýna verkið í Ásmundarsal, með takmörkuðu sæta- og sýningarfjölda.
„Mig langaði til að má út línur milli listgreina,“ segir Edda. „Með því að faðma salinn að okkur tekur hann stjórnina. Við erum með sýningu á sýningu, myndlistarsýningu á leiksýningu og tónlist undir. Þetta er samruni margra listgreinar.“
Fjallað var um Hauk og Lilju í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.