Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Handtökur vegna gruns um fyrirhuguð hryðjuverk

01.05.2021 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd: BBC
Lögregla í Englandi og Wales hefur handtekið fimm, þar á meðal sextán ára ungling, vegna gruns um fyrirhugað hryðjuverk. Álitið er að hin handteknu tilheyri hægrisinnuðum samtökum og er hvert og eitt þeirra nú yfirheyrt á lögreglustöð í Vestur-Yorkshire. 

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að ráðist hafi verið til inngöngu í tvö hús í bænum Keighley í Vestur-Yorkshire, hús í Swindon og Anglesey í Wales og fólk á þrítugsaldri auk áðurnefnds unglings handtekið.

Sprengjusérfræðingar voru kallaðir til í Keighley eftir að lögreglumenn fundu efni sem vakti grunsemdir þeirra í húsi í bænum. Húsið og nokkur nærliggjandi eru girt af meðan á rannsókn stendur, samkvæmt upplýsingum lögreglu, og íbúum komið í öruggt skjól.

 Að sögn talsfólks lögregludeildar á svæðinu sem rannsakar hryðjuverk (CTPNE) eru handtökurnar hluti af yfirstandandi rannsókn á meintum, fyrirhuguðum hryðjuverkum hægrisinnaðra hópa. Handtökurnar hafi verið þaulskipulagðar og undirbúnar og því sé engin hætta á ferðum.