Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fjármálaráðherra hefur áhyggjur af verðbólgunni

01.05.2021 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjármálaráðherra hefur áhyggjur af hækkandi verðbólgu, ekki síst á meðan atvinnuleysi er mikið. Hann veltir fyrir sér hvort fleira en húsnæðisliðurinn hafi þar áhrif og segir meðal annars mikilvægt að verslunin fari ekki fram úr sér í verðhækkunum.

Verðbólga síðustu tólf mánaða mældist 4,6% í apríl og hefur nú mælst yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, sem er tvö og hálft prósent, fjóra mánuði í röð og ekki verið meiri síðan í febrúar 2013.

„Maður hefur áhyggjur af því og við þurfum að fylgjast mjög vel með því áfram. Við erum ekki komin í neina óðaverðbólgu, en það kemur á óvart að fá þessar mælingar núna, þetta er umfram það sem væntingar stóðu til um,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Hann segist hafa áhyggjur af því að þetta gerist á meðan mikið atvinnuleysi sé. Húsnæðismarkaðurinn sé á mikilli uppleið, en fleira komi til, þjónusta hafi hækkað í verði og fleira. Það skipti máli að allir sem áhrif geta haft á þróunina vinni saman.

„Þar skiptir máli að verslunin í landinu fari ekki fram úr sér, það skiptir máli að það sé verið að horfa til þess í fjármálakerfinu að ýta ekki undir þessa þróun, sveitarfélögin þurfa að gá eftir því að framboð af lóðum og þar með húsnæði sé fullnægjandi og mæti eftirspurn. Seðlabankinn hefur síðan kistu af ýmsum úrræðum til þess að beita við þessar aðstæður. Við hljótum að hafa væntingar til þess að þetta róist og verðbólgan komi niður aftur og færist nær markmiðinu smám saman, en þetta er áhyggjuefni.“

Bjarni segir verðbólguna ekki komna úr böndunum, en þróunin sé í öfuga átt. Gengið hafi verið stöðugt í marga mánuði og krónan aðeins styrkst.

„Þannig að maður fer að spyrja sig hvort að það sé fleira en bara húsnæðisliðurinn sem að er að hafa áhrif,“ segir fjármálaráðherra.