Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áratugabarátta í höfn með styttingu vinnuvikunnar

01.05.2021 - 14:22
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Stytting vinnuvikunnar hjá þeim sem vinna vaktavinnu hjá hinu opinbera tekur gildi í dag en hjá dagvinnufólki tók hún gildi um áramótin.

Tveir af hverjum þremur hjúkrunarfræðingum vinnur vaktavinnu og segir Guðbjörg Pálsdóttir formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga áratugubaráttu vera í höfn. Vinnuvika hjúkrunarfræðinga í vaktavinnu verður nú 32 til 36 stundir. 

„Við erum búin að berjast fyrir því að 80 prósent vaktavinna væri metin sem 100 prósent. Og það er í rauninni niðurstaðan ef þú endar í 32 klukkustunda vinnuviku. Þetta bíður upp á meiri aðskilnað milli vinnu og einkalífs og á líka að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar og það er nú það sem við viljum númer 1, 2 og 3. Þetta er bara framför sem við höfum ekki séð í yfir 40 ár,“ segir Guðbjörg.

Þó nokkur hluti hjúkrunarfræðinga í vaktavinnu hefur aukið starfshlutfall sitt með þessari breytingu en vinnur ekki fleiri stundir en áður og fær hærri laun.