Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Viðskiptasamband við Init í alvarlegri endurskoðun

Útifundur á Ingólfstorgi í dag. - Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Viðskiptasamband Reiknistofu lífeyrissjóða við fyrirtækið Init sem rekur tölvukerfi Reiknistofunnar er til alvarlegrar endurskoðunar, segir stjórnarmaður. Stéttarfélagið Efling vill óháða rannsókn.

Í Kveik í gær var sagt frá háum greiðslum til Init og færslum á milli þess og systurfélags. Tíu lífeyrissjóðir standa saman að Reiknistofu lífeyrissjóðanna, þeirra stærst er Gildi sem er lífeyrissjóður Eflingar. Gildi svaraði ósk Eflingar um óháða rannsókn í dag og benti á að Gildi væri ekki með þjónustusamning við Init heldur Reiknistofan. 

„Við munum ekkert á móti því að það verði farið í óháða rannsókn. Við munum veita Fjármálaeftirlitinu og öllum þeim sem óska eftir gögnum allt það sem við höfum, teljum okkur ekki hafa neitt að fela og munum hvetja Init til að gera slíkt hið sama,“ segir Ólafur Sigurðsson stjórnarmaður í Reiknistofu lífeyrissjóðanna og framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.

Ólafur segir að verið sé að skoða öll úrræði sem Reiknistofa lífeyrissjóðanna hafi samkvæmt þjónustusamningi. 

„Og viðskiptasambandið er bara til alvarlegrar endurskoðunar. Við munum ræða það beint við þá tæpitungulaust á fundi með okkar sérfræðingum og það er stutt í að sá fundur muni eiga sér stað.“

Hann segir fjölmarga hafa haft samband við Reiknistofuna vegna þessa og sjóðfélögum lífeyrissjóðanna verði haldi upplýstum.