Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Um sjötíu minnisblöð og nærri sextíu reglugerðir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sendir heilbrigðisráðherra minnisblað um helgina með tillögum um sóttvarnaaðgerðir. Minnisblöðin frá honum til ráðherra í tengslum við COVID-19 eru orðin um 70. Þegar ný reglugerð um samkomutakmarkanir innanlands verður kynnt í næstu viku verður hún sú 59. sem tekur gildi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í svörum heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu um kórónuveirufaraldurinn.

Flestir binda vonir við að orðin „minnisblað“ og „reglugerð“ verði ekki jafn fyrirferðamikil næstu mánuði og þau hafa verið síðustu misseri. Enda gengur bólusetning vel og stjórnvöld stefna á að aflétta öllum takmörkunum í sumar.

Í svari ráðuneytisins kemur fram að heilbrigðisráðherra hafi fengið um 70 minnisblöð frá Þórólfi í faraldrinum, það nýjasta er væntanlegt um helgina.  Á upplýsingafundi í gær gaf Þórólfur ekkert upp um hvort hann myndi leggja til að slakað yrði á aðgerðum enda hafa smit utan sóttkvíar verið að koma upp síðustu daga.

Á eftir minnisblaði kemur yfirleitt reglugerð og sú nýjasta er væntanleg í næstu viku þegar núverandi reglugerð fellur úr gildi. Í svari ráðuneytisins kemur fram að alls hafi 58 reglugerðir verið birtar vegna takmarkana á samkomum og skólastarfi af völdum COVID-19.

Reglugerðirnar hafa verið oft verið íþyngjandi og 650 hafi sótt um undanþágu frá þeim síðan faraldurinn hófst. Undanþágubeiðnirnar sjálfar eru fleiri, því í einhverjum tilvikum hafa þeir sömu sótt um undanþágu oftar en einu sinni.

Ráðuneytið gat ekki svarað hvernig undanþágubeiðnirnar voru afgreiddar því mikil vinna færi í að greina þær upplýsingar. Í flestum tilvikum hafi þeim þó verið synjað. Ráðuneytið tekur fram að oft hafi verið hægt að ljúka málum með því að veita leiðbeiningar í stað undanþágu eða synjunar.

Og svo eru það landamærin. Ný reglugerð tók gildi í vikunni þar sem farþegum 16 landa er skylt að vera í sóttkví í sóttvarnahúsi. Þetta var 20. reglugerðin sem hefur verið sett um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Ísland frá upphafi faraldursins. Ein auglýsing hefur síðan verið birt um svæði sem talin eru sérstök há-áhættusvæði vegna COVID-19.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV