Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Um 1.300 bílum fargað frá áramótum og 2.632 nýskráðir

30.04.2021 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd: Burak Kebapci - Pexels
Það sem af er ári hefur tæplega 1.300 bílum verið fargað en meðalaldur þeirra er tæplega sautján og hálft ár. Meðalaldur þeirra bíla sem lent hafa í pressunni hefur hækkað um fimm ár frá árinu 2004 en mjög dró úr förgun árin eftir hrun.

Nýskráðir fólksbílar eru 2.632, það sem af er ári til 23. apríl. Allt árið 2020 voru skráðir 9.365 nýir bílar en þó er samdráttur milli ára um 3,8% sé litið til sama tímabils.

Þetta kemur fram í tölum frá Bílgreinasambandinu en metfjöldi nýskráninga var árið 2017 þegar Íslendingar keyptu ríflega 21 þúsund nýja bíla. Nýskráningum fækkaði árlega eftir það og kórónuveirufaraldurinn varð til þess að mjög dró úr bílakaupum í fyrra. 

Þegar leið frá hruni fjölgaði þeim bílum sem fargað var og árið 2017 var svo komið að fleiri bílum var hent en árið 2008 eða tæplega 9.000. Árið 2020 luku rúmlega 10 þúsund bílar þjónustu við eigendur sína en skilagjald fyrir bíl til förgunar er 20 þúsund krónur.

Heil­brigðis­eft­ir­lit Reykja­vík­ur telur ástæðu til að hækka þá greiðslu umtalsvert, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag, enda núverandi fjárhæð ekki nógu mikill hvati til að mæta með bíl til förgunar.

Nýskráningar til almennra notkunar eru 81,3% það sem af er ári og til bílaleiga 18%. Hlutur tengiltvinnbíla er um 26,2%, rafmagnsbíla 24,1%, bensínbíla 17,7%, dísilbíla 16,7% og blendingsbíla eða hybrid 15,3%