Á hverju ári vinnur UNICEF á Íslandi fræðslumynd fyrir grunnskólanemendur landsins. Þemað er mismunandi milli ára. Til dæmis hefur verið fjallað um Sýrlandsstríðið og áhrif loftslagsbreytinga á börn og í fyrra snerist fræðslan um kórónuveiruna. Fátt annað hefur verið rætt í samfélaginu undanfarið en bóluefni og bólusetning og það gaf því augaleið að fræðslumynd þessa árs yrði um bólusetningu.
UNICEF bólusetur árlega milljónir barna við lífshættulegum sjúkdómum og í myndinni er fjallað um bólusetningar almennt og í sögulegu samhengi. Mikilvægi þeirra er útskýrt og svo er fjallað um þróun bólusetninga við kórónuveirunni og aðkomu UNICEF að því að útvega bóluefni fyrir efnaminni ríki heimsins. Starfsmenn samtakanna passa til dæmis að ekkert komi fyrir bóluefnin frá því að þau koma úr framleiðslu og þar til að búið er að bólusetja með þeim.