Þórólfur útskýrir bólusetningar í fræðslumynd UNICEF

Mynd með færslu
 Mynd: UNICEF

Þórólfur útskýrir bólusetningar í fræðslumynd UNICEF

30.04.2021 - 10:09

Höfundar

Í nýrri fræðslumynd fræðir Ævar Þór Benediktsson, sendiherra UNICEF á Íslandi, áhorfendur um sögu og mikilvægi bólusetningar fyrir börn. Hann fær auðvitað hjálp frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Nadíu Lóu, formanni ungmennaráðs UNICEF á Íslandi, við að skilja bólusetningar og áhrif þeirra á börn betur.

Á hverju ári vinnur UNICEF á Íslandi fræðslumynd fyrir grunnskólanemendur landsins. Þemað er mismunandi milli ára. Til dæmis hefur verið fjallað um Sýrlandsstríðið og áhrif loftslagsbreytinga á börn og í fyrra snerist fræðslan um kórónuveiruna. Fátt annað hefur verið rætt í samfélaginu undanfarið en bóluefni og bólusetning og það gaf því augaleið að fræðslumynd þessa árs yrði um bólusetningu. 

UNICEF bólusetur árlega milljónir barna við lífshættulegum sjúkdómum og í myndinni er fjallað um bólusetningar almennt og í sögulegu samhengi. Mikilvægi þeirra er útskýrt og svo er fjallað um þróun bólusetninga við kórónuveirunni og aðkomu UNICEF að því að útvega bóluefni fyrir efnaminni ríki heimsins. Starfsmenn samtakanna passa til dæmis að ekkert komi fyrir bóluefnin frá því að þau koma úr framleiðslu og þar til að búið er að bólusetja með þeim. 

Mynd með færslu
 Mynd: UNICEF
Ævar Þór Benediktsson, sendiherra UNICEF á Íslandi, fræðir um bólusetningu í myndinni.

Ævar Þór lætur sjálfur bólusetja sig í myndinni og útskýrir að samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eigi öll börn rétt á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Það þýði meðal annars að þau eigi rétt á að fá bólusetningu við sjúkdómum sem geta skaðað þau. 

“Bólusetningar hjálpa líka börnum að njóta annarra réttinda sinna, því þegar maður er frískur er til dæmis auðveldara að læra, leika sér og taka þátt í því að gera heiminn að betri stað,” segir Ævar. 

Ævar Þór ræðir jafnframt við Þórólf Guðnason um hvað gæti gerst ef engin börn væru bólusett. Þá gætu hættulegir smitsjúkdómar komið upp og margir dáið. Þórólfur skýrir líka hvernig bólusetningar geta verndað þá sem eru bólusettir og alla aðra í samfélaginu því ef nógu margir eru bólusettir næst það sem kallað er hjarðónæmi. Þá getur veiran ekki dreift sér af því að hún rekst aðallega fólk sem er bólusett. 

Fræðslumynd UNICEF er aðgengileg í spilara KrakkaRÚV. 

Tengdar fréttir

Innlent

Stærsta bólusetningarverkefni sögunnar

Innlent

Ævar Þór fyrsti sendiherra UNICEF á Íslandi