Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Þjóðarsorg í Ísrael vegna stórslyss á trúarhátíð

30.04.2021 - 12:43
epa09168929 Israeli rescuers transport injured Ultra-Orthodox Jews from an event celebrating Lag Ba'Omer to a hospital in Mount Meron, Israel, 30 April 2021. Dozens of people were killed and injured in the revelry complex on Mount Meron, after an apparent stampede occured during an event marking the end of the Jewish holiday of Lag Ba'Omer, the day marks the anniversary of the death of Rabbi Shimon bar Yochai, a sage from some 1,800 years ago, and the day on which he revealed the secrets of the 'kabbalah,' or Jewish mysticism.  EPA-EFE/DAVID COHEN ISRAEL OUT
 Mynd: EPA-EFE - Jinipix
Að minnsta kosti 45 létust og á annað hundrað slösuðust þegar áhorfendapallur gaf sig á fjölmennri trúarhátíð í Ísrael í nótt. Þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í landinu.

Hátíðin var haldin í þorpinu Meron í norðurhluta Ísraels. Leyfi hafði verið gefið fyrir því að þrjátíu þúsund manns mættu koma þar saman til að fagna upphafi Lag BaOmer-hátíðarinnar. Allt að níutíu þúsund mættu, að sögn ísraelskra fjölmiðla, einkum strangtrúaðir gyðingar.

Fólkið sem lést var flest allt úr sama söfnuðinum í Jerúsalem. Þeirra á meðal voru fimm börn og unglingar undir sextán ára aldri. Um 150 slösuðust. Að minnsta kosti sex eru í lífshættu. 250 sjúkrabílar voru sendir á staðinn ásamt sex sjúkraþyrlum. Þá voru 300 tómar rútur sendar til þorpsins til að flytja fólkið heim. 

Benjamín Netanyahu forsætisráðherra fór á slysstaðinn í morgun. Hann sagði að slysið væri eitt hið alvarlegasta í sögu Ísraels. Þjóðarsorg verður í landinu á sunnudag. Rannsókn hefur verið fyrirskipuð til að komast að því hvað fór úrskeiðis í Meron í nótt.

Stjórnvöldum hafa borist samúðarkveðjur hvaðanæva að í dag, meðal annars frá fulltrúum erlendra ríkja og trúarsöfnuðum.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV