Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir öllum heimilt að aka um göngugötur eftir miðnætti

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Santos - RÚV
Borgarfulltrúi Miðflokksins segir fyrir liggja að opna megi svokallaðar sumargötur fyrir bílaumferð á miðnætti, en tímabundin ráðstöfun þeirra sem göngugatna rennur þá út.

Deiliskipulag fyrir göngugöturnar var samþykkt í skipulags og samgönguráði og  borgarráði í mars og í borgarstjórn 20. apríl. Það tekur gildi við auglýsingu í  Stjórnartíðindum. Það náðist ekki fyrir 1. maí og því var lagt til að framlengja tímabundna ráðstöfun í nokkrar vikur.

Það er Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins og áheyrnarfulltrúi flokksins í borgarráði, sem fjallar um málið í færslu á Facebook í dag og að borg­ar­stjórn komi saman á þriðjudag næstkomandi, 4. maí.

Tilkynning!!! Laugavegurinn verður opinn fyrir bílaumferð frá og með miðnætti í dag og þar til borgarsjórnarfundi líkur...

Posted by Vigdís Hauksdóttir on Föstudagur, 30. apríl 2021

Því verði Laugavegur opinn fyrir bílaumferð í fjóra sólarhringa frá og með miðnætti uns borgarsjórnarfundi lýkur. Ákvæðið um tímabundnar göngugötur hafi runnið út og þurfi staðfestingu borgarstjórnar þar til ákvæði um varanlegar göngugötur taki gildi. 

Borgarráð samþykkti í september síðastliðnum að Laugavegur milli Klapparstígs og Frakkastígs og Vatnsstígur milli Laugavegs og Hverfisgötu skyldu áfram verða eingöngu ætlaðar gangandi vegfarendum fram til 1. maí.

Þá var undirbúningur deiliskipulags varðandi varanlegar göngugötur hafinn og búist við að það tæki gildi fyrir 1. maí.

Á fundi borgarráðs í gær var lögð fram tillaga skipulags- og samgönguráðs um að fram­lengja und­anþágu­ákvæði um tíma­bundna lokun framangreindra gatna.

Það samþykktu borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna en tveir borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn því og einn sat hjá.

Mótatkvæði voru einnig greidd í skipulags og samgönguráði og málið fer því til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar samkvæmt ákvæðum um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins sagði í harðorðri bókun að tillagan sýndi að lokun gatnanna skorti lagaheimild og Laugavegurinn væri rústir einar, líktist helst draugabæ í eyði og rekstraraðilar hefðu mátt þola hörmungar af hálfu borgarstjórnarmeirihlutans.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins sagði í bókun sinni að semja hafi þurft nýja tillögu í hasti, og málið væri því allt fremur klúðurslegt. Betra hefði verið opna fyrir umferð tímabundið til að kanna hvort viðskipti glæddust í miðbænum.