Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Læknar og ríkislögreglustjóri á móti frumvarpi ráðherra

30.04.2021 - 07:48
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Ríkislögreglustjóri og Læknafélag Íslands leggjast gegn frumvarpi heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta. Ríkislögreglustjóri segist ekki geta stutt frumvarpið í núverandi mynd því það bjóði upp á mismunandi túlkun sem kunni að gera lögreglu erfiðara um vik að framfylgja lögunum. Læknafélag Íslands telur að leiðin sem frumvarpið leggur til eigi eftir að auka „fíkniefnavanda íslenskra ungmenna frá því sem nú er“. Rauði krossinn fagnar breytingunni.

Þetta kemur fram í umsögnum ríkislögreglustjóra, Læknafélags Íslands og Rauða Krossins við frumvarp Svandísar Svavarsdóttur um afglæpavæðingu neysluskammta. Samkvæmt frumvarpinu verður varsla ávana- og fíkniefna í takmörkuðu magni ekki refsiverð.

Ríkislögreglustjóri telur að skilgreina þurfi betur hvað falli undir hugtökin „varsla“ og „eigin nota“. Ef þessi tvö hugtök séu ekki skilgreind ítarlega geti hugsanlega komið til mismunandi túlkunar á ákvæðum laganna og það geti gert lögreglu erfiðara um vik að framfylgja lögunum.

Ríkislögreglustjóri segist sammála þeirri hugsun að brýnt sé að snúa af braut harðra refsinga fyrir fíkniefnaneyslu. Huga mætti að því í löggjöfinni að gera lögreglu kleift að bjóða upp á önnur úrræði en sektargerðir þegar minniháttar brot af þessu tagi eru afgreidd.

Gagnrýnin er öllu hvassari í umsögn Læknafélags Íslands. Efla þurfi og auka meðferðarúrræði fyrir þá sem berjast við fíkn og verja meiri peningum til slíkra verkefna. Hvergi sé að finna neinar hliðaraðgerðir sambærilegum þeim sem gripið hafi verið til í þeim löndum sem hafa lögleitt neyslu fíkniefna eða afglæpavætt hana. Þegar svo afdrifaríkt skref sé stigið þurfi umfangsmiklar aðgerðir þar sem boðið sé upp á meðferðarúrræði fyrir fíkniefnaneytendur, ráðgjöf og stuðning.

Læknafélagið bendir á að hvergi sé gerð tilraun til að skilgreina hvað neysluskammtur sé og hætt sé við að fyrirhugaðar lagabreytingar dragi mátt úr þeim tólum sem lögregla hafi í baráttunni gegn ólöglegri sölu fíkniefna.  Ekki liggi heldur fyrir hvernig stjórnvöld ætli að bregðast við aukinni fíkniefnaneyslu ungmenna og fylgikvilla þess; kvíða, þunglyndi og geðrofi.

Læknafélagið segir að á þetta hafi verið bent þegar frumvarpið var sett í samráðsgátt stjórnvalda. „Ef neysluskammtar verða lögleiddir þá mun það að öllum líkindum hvetja ungmenni til að prófa þessi ólöglegu efni með ófyrirséðum afleiðingum öðrum en þeim að fíklum mun fjölga.“

Rauði Krossinn styður frumvarpið og stefnu þess; að meðhöndla vanda vímuefnanotenda í heilbrigðiskerfinu fremur en dómskerfinu. Hann styður sérstaklega þá breytingu að kaup á neysluskömmtum verði einnig afglæpavædd sem sé óhjákvæmilegur þáttur vímuefnanotenda til að útvega sér efni í flestum tilvikum.

Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál, fagnar frumvarpinu og lýsir yfir afdráttarlausum stuðningi við það. Það sé spor í rétta átt og geti orðið til þess að auka möguleika fólks með vímuefnavanda til að takast á við og halda honum niðri. Refsingar fyrir smávægileg vímuefnabrot geti eingöngu orðið til þess að fólk í þeirri stöðu festist í „viðjum vímuefna til langframa.“