Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krefjast óháðrar rannsóknar á viðskiptum við Init

30.04.2021 - 13:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Efling hefur krafist þess að Gildi lífeyrissjóður beiti sér fyrir óháðri rannsókn á viðskiptum við Init ehf. Framkvæmdastjóri félagsins segir sjóðfélaga eiga rétt á að öll spil séu lögð á borðið.

Fjallað var um fyrirtækið Init ehf. og viðskipti lífeyrissjóða og stéttarfélaga við það í þætti Kveiks í gær. Init rekur kerfi sem lífeyrissjóðir nota til að halda utan um öll iðgjöld, sjóðfélagalán og önnur réttindi en í Kveik kom fram að Init hefði átt í hundraða milljóna viðskiptum við systurfélag sitt og þrjú félög í eigu lykilstjórnenda og að mikill arður væri af rekstri tölvukerfisins. 

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir að Reiknistofa lífeyrissjóða hafi neitað að veita félaginu aðgang að samningum sem Reiknistofan gerði við Init um verðskrá fyrir hönd sjóðanna.

„Því var haldið fram að um þetta ríki trúnaður, og þá væntanlega trúnaður gagnvart Init, en þetta kemur mér spánskt fyrir sjónir því að framkvæmdastjóri Init hefur sjálfur sagt og staðfest skriflega að hann telji að svo sé ekki,“ segir Viðar.

Efling hefur nú krafist þess að stjórn Gildis - lífeyrissjóðs beiti sér fyrir óháðri rannsókn á viðskiptum við Init ehf. Þá þurfi Reiknistofa lífeyrissjóða að leggja öll spilin á borðið.

„Það er sameiginlegt hagsmunamál allra lífeyrissjóðanna sem í hlut eiga og verkalýðsfélaganna sem eru búin að standa í þessum viðskiptum og greiða þetta dýrum dómi beint úr vösum félagsmanna og sjóðfélaga núna árum saman,“ segir Viðar.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV