Hækkunin 14 til 29 prósent
Edda Rós Karlsdóttir formaður nefndarinnar segir tímakaupið hafa hækkað mismikið eftir heildarsamtökum á vinnumarkaði:
„Við sjáum alveg greinilegt samhengi á milli launastigs þ.e.a.s. hvort að fólk er með há laun eða lág laun. Og launabreytingarnar voru alveg frá 14 og upp í tæplega 29 prósent. Og þeir sem fengu svona mikla hækkun voru týpiskt hópar sem að voru með lág laun og voru líka að semja um breytingu vinnu tíma og það kemur inn í,“ segir Edda Rós.
Kjaratölfræðinefnd er samstarfsnemd heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga. Nefndin á að taka saman tölfræðigögn um laun og efnahag og stuðla að sameiginlegum skilningi vinnumarkaðarins á eiginuleikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga. Það er sem sagt ekki nefndarinnar að túlka gögn eða að spá. Það er hlutverk stéttarfélaga og atvinnurekenda.
Krónutöluhækkun skýrir hækkun þeirra lægstlaunuðu
Ástæða hækkunar á tímakaupi er krónutöluhækkun sem samið var um í kjarasamningum en líka stytting vinnuvikunnar. Það er að segja fólk vinnur færri stundir á viku, heldur sömu mánaðarlaunum og eru laun á hverja klukkustund í hærri.
Edda Rós segir ekki koma á óvart að laun kvenna mælast lægri en karla í öllum félögum og öllum mörkuðum nema með örfáum undantekningum.
„Það sem gerist af því að nú er samið um krónutöluhækkanir þá koma krónurnar í prósentum betur út fyrir konur. Þannig að þessi launamunur er að minnka og hefur minnkað á samningstímanum. Góðu fréttirnar eru þær að launamunurinn hefur lækkað en ástæðan er auðvitað sú að launamunurinn var of mikill.“
Konur eru þó enn með lægri laun en karlar.
Innflytjendur 16% vinnuafls
Sextán af hverjum eitthundrað á vinnumarkaði eru innflytjendur. Þar er átt við fólk sem fæddist í útlöndum, flutti hingað eldra en 18 ára og á bæði foreldra og afa og ömmur sem eru fædd í útlöndum.
Innflytjendur starfa einkum í ferðaþjónustu, framleiðslu og byggingaiðnaði.
„Þeir eru almennt með lægri laun í öllum greinum og þeir fengu líka hærri hækkanir á samningstímanum.“
Ítarlegar upplýsingar má finna í vorskýrslu nefndarinnar.