Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ítalía: Bólusettu hálfa milljón á einum degi

30.04.2021 - 16:02
epa09167699 People wait to be vaccinated against Covid-19 disease at the vaccination hub set up at the Brescia Fair, in Brescia, northern Italy, 29 April 2021. . Italian health ministry said on 28 April there have been 13,385 new cases of COVID-19 in Italy in the last 24 hours, and death toll has now surpassed 120,000, while number of vaccine doses distributed in Italy has now passed the 20 million mark.  EPA-EFE/FILIPPO VENEZIA
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Ítölum tókst í fyrsta skipti í gær að ná því markmiði að bólusetja hálfa milljón landsmanna gegn kórónuveirunni á einum degi. Mikið liggur á að ljúka verkinu þar sem Ítalía hefur farið sérlega illa út úr heimsfaraldrinum efnahagslega.

Stjórnvöld í Rómarborg settu sér það markmið að ná að bólusetja fimm hundruð þúsund manns á dag um miðjan apríl. Það tókst þó ekki fyrr en í gær vegna skorts á bóluefnum. Roberto Speranza heilbrigðisráðherra fagnaði áfanganum í tilkynningu á samfélagsmiðlum í dag og þakkaði heilbrigðisstarfsfólki vel unnin störf.

Búið er að bólusetja nítján og hálfa milljón af sextíu milljónum íbúa á Ítalíu einu sinni og hátt í sex milljónir tvisvar. Ítalska ríkisútvarpið RAI hefur eftir Paolo Figliuolo hershöfðingja, sem stýrir bólusetningarátakinu, að stefnt sé að því að hafa bólusett sextíu prósent fullorðinna landsmanna að fullu um miðjan júlí.

Samkvæmt gögnum ECDC, Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins, gengur átakið hægar á Ítalíu en í öðrum fjölmennum ríkjum álfunnar. Þar er búið að bólusetja tæplega fjórðung landsmanna, en 28,1 prósent í Þýskalandi, 27,6 prósent á Spáni og 26,7 prósent í Frakklandi. Ítölum liggur á að ljúka verkinu, þar sem efnahagsmálin eru í ólestri eftir lokanir og harðar sóttvarnaaðgerðir vegna farsóttarinnar.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV