Hlæjandi Spánverjinn látinn

Juan Joya Borja, betur þekktur sem hlæjandi Spánverjinn.
 Mynd: Victor Lerena - EPA-EFE

Hlæjandi Spánverjinn látinn

30.04.2021 - 13:41

Höfundar

Spænski grínistinn Juan Joya Borja, sem líka hefur verið þekktur undir gælunafninu El Risitas eða Flissarinn, lést á miðvikudag 65 ára að aldri. Þetta er ekki nafn sem margir þekkja en myndband með honum í sjónvarpsviðtali skellihlæjandi afar smitandi hlátri, í gervi verkfræðings, stjórnmálaráðgjafa eða annars sem fólki dettur í hug, er þó þekkt um alla heimsbyggðina.

Borja, sem hefur verið þekktur í netheimum sem hlæjandi Spánverjinn, kom fyrst fram á sjónarsviðið sem skemmtikraftur árið 2000. Fram að því vann hann ýmis störf, var meðal annars kokkur og vann við að hlaða sementspokum. Hann var þá með viðtöl í sjónvarpsþáttunum El Vagamundo. Viðtölin voru í léttum dúr og snerust um alls konar aðstæður sem fólk gat lent í. Þá þegar fékk hann þetta viðurnefni, El Risitas, vegna skræks hláturs sem hann rak iðulega upp í viðtölunum.

Umrætt myndskeið, sem gerði hann heimsfrægan þó að fáir vissu nafn hans, er frá árinu 2007 úr þætti sem blaðamaðurinn Jesús Quintero stjórnaði og hét Ratones Coloraos. Samtalið sjálft var hvorki hápólitískt né tæknilegt þó að ýmislegt sem honum hefur verið lagt í munn upp úr því síðar hafi verið það. Borja var þarna að rifja upp þegar hann starfaði sem aðstoðarmaður í eldhúsi á veitingastað á strönd Andalúsíu. Hann var sendur klukkan tvö að nóttu með 20 óhreinar pönnur sem voru notaðar til að steikja paellu, vinsælan hrísgrjónarétt á Spáni. Borja átti að setja þær í sjóinn við ströndina og láta saltið þrífa pönnurnar. Morguninn eftir þegar átti að sækja pönnurnar hafði flætt að, og aðeins ein af þessum 20 pönnum fannst aftur. Borja þurfti margoft að gera hlé á máli sínu vegna þess að hann hló svo mikið og stjórnandi þáttarins tárfelldi líka af hlátri nánast allt viðtalið.

Myndskeið af þessu samtali var sett inn á Youtube fljótlega eftir að það var sýnt, og var strax töluvert spilað. En árið 2014 byrjaði fólk að setja alls ótengdan texta yfir myndskeiðið, yfirleitt til að gera grín að einhverju. Það fyrsta sem í það minnsta náði einhverri útbreiðslu var þegar bræðralag múslima gerði grín að forseta Egyptalands, Abcel Fattah el-Sisi.

En myndskeiðið fór ekki almennilega á flug fyrr en ári seinna, 2015. Þá var Borja í hlutverki verkfræðings hjá Apple sem var að vinna að nýju MacBook tölvunni, sem var þá nýkomin og þótti heldur illa heppnuð. Þar átti hann að lýsa því þegar Tim Cook forstjóri Apple sá þá tölvu í fyrsta sinn.

Síðan þá hafa verið settar ótal margar útgáfur af þessu myndskeiði á netið og fengið misjafna útbreiðslu eins og gengur. Ein sú vinsælasta er um hápólitískt mál, þar sem Borja er settur í gervi ráðgjafa Davids Camerons, sem var forsætisráðherra í Bretlandi þegar ákveðið var að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Það sem svo er væntanlega í sérstöku uppáhaldi hjá okkur Íslendingum er frásögn af tapi Englendinga fyrir strákunum okkar á Evrópumótinu í knattspyrnu 2016.
 

Borja veiktist í ágúst og var lagður inn á sjúkrahús. Í ljós kom að æðakerfi hans var svo illa farið að það þurfti að taka af honum annan fótinn. Nú í vikunni tóku veikindin sig upp aftur og hann lést á sjúkrahúsi á miðvikudaginn. Ekki hefur verið greint frá dánarorsök.

Fjölmargir hafa minnst Borja á samfélagsmiðlum og meðal annars þakkað honum fyrir að hafa létt lundina með smitandi hlátri sínum.