Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Gjaldeyrir seldur fyrir 71 milljarð króna

Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash
Svo gott jafnvægi hefur náðst á gjaldeyrismarkaði að Seðlabankinn hefur ákveðið að hætta gjaldeyrissölu. Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að frá því í september í fyrra og þar til nú hafi bankinn selt alls 453 milljónir evra sem jafngildir 71,2 milljörðum íslenskra króna. Núna hafi gengi krónunnar styrkst og jafnvægi aukist á gjaldeyrismarkaði og því sé ekki lengur þörf fyrir reglulega gjaldeyrissölu.

Ástæða þess að Seðlabankinn hóf gjaldeyrissöluna voru áhrifin af heimsfaraldri kórónuveirunnar. Síðasta haust hafði gengi krónunnar „veikst töluvert vegna mikils samdráttar útflutningstekna og fjármagnshreyfinga, og verðmyndun á gjaldeyrismarkaði var óskilvirk“, segir í frétt á vef bankans.

Þrátt fyrir þessi tíðindi er alls ekki hægt að álykta að þjóðarbúið hafi jafnað sig á COVID-kreppunni. Verðbólga síðustu tólf mánaða mældist 4,6 prósent í apríl og hefur nú mælst yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fjóra mánuði í röð, eða allt þetta ár. Verðbólgan hefur ekki verið meiri síðan í febrúar 2013.

Ríkisstjórnin kynnti í dag efnahagsaðgerðir bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.