Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Gera athugasemdir við hlutverk starfshóps um happdrætti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/kveikur
Samtök áhugafólks um spilafíkn gera athugasemdir við skipan og hlutverk starfshóps dómsmálaráðherra sem ætlað er að kanna mögulegar réttarbætur á sviði happdrættismála. Samtökin fagna þó allri umræðu um málefnið. 

Í opnu bréfi samtakanna til ráðherra segir að starfshópnum sé ekki ætlað að fjalla um þá kröfu samtakanna að spilakössum verði lokað til frambúðar. Auk þess tengist meirihluti skipaðra samtökum og stofnunum sem hafi fjárhagslega hagsmuni af rekstri spilakassa og happdrætta.

Öllu ægi saman í erindisbréfi hópsins auk þess að starfsvið hans sé um margt óljóst. Meðal þess sem ætlunin er að athuga er möguleikinn á að þeir sérleyfishafar sem nú starfi geti boðið upp á spil á netinu og hvernig sporna megi við ólöglegri netspilun hér á landi.

Eins stendur til að kanna leiðir til að skylda til notkunar svokallaðra spilakorta. Í bréfi samtakanna segir að ætla hefði mátt að markvissara væri að afmarka álitamálin „svo sem hvað varðar netspilun, samvinnu rekstraraðila, spilakort, eftirlit, rannsóknir og meðferðarúrræði á spilafíkn í stað þess að ætla starfsnefnd að komast að niðurstöðu um alla þessa þætti.“

Samtökin staðhæfa að erindisbréf ráðherra beri þess ekki merki að vilji sé til „að takast á við þann vágest sem fjárhættuspil eru í lífi margra einstaklinga og fjölskyldna.“ Starfshópunum er ætlað að skila fyrstu tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. júní.

Alma Björk Hafsteinsdóttir, fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi, er tilnefnd sem fulltrúi samtakanna í starfshópnum. Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður er formaður, auk þess sem happdrætti SÍBS, Háskólans og DAS eiga hvert sinn fulltrúa.

Einnig situr fulltrúi frá Íslandsspilum í hópnum og tveir frá Getspá og getraunum. Jafnframt sitja þrír sérfræðingar í hópnum og starfsmaður starfshópsins er Árni Grétar Finnsson lögfræðingur.