Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fólk getur ekki hafnað AstraZeneca og fengið annað efni

Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, læknir og sérfræðingur í sóttvörnum hjá embætti landlæknis, segist skilja áhyggjur fólks af bóluefninu AstraZeneca. Þeir sem taldir eru í lítilli áhættu á að fá alvarlegar aukaverkanir geti hins vegar ekki hafnað bóluefninu og ætlast til þess að fá eitthvað annað. „Eins og staðan er núna er það AstraZeneca eða ekkert,“ segir Kamilla. Það verði ekki fyrr en í fyrsta lagi einhvern tímann í sumar sem unnt verði að bjóða fólki annað.

Rætt var við Kamillu í Hádeginu á Rás 1 um áhyggjur fólks af AstraZeneca. „Við höfum skilning á því en við höfum ekki ótakmarkað af öðrum bóluefnum,“ segir Kamilla. Þeir sem eru taldir í lítilli áhættu á blóðtappa af völdum AstraZeneca geti ekki fengið annað bóluefni. „En það kemur vonandi af því þegar bæði framboð af bóluefnum sem við höfum nú þegar, fer vaxandi og eins þegar bætast við bóluefni sem búið er að gera samninga um en við erum ekki farin að fá til landsins.“

Opnir bóluefnadagar seinna 

„Eins og staðan er núna er það AstraZeneca eða ekkert. En þegar við höfum meira framboð af bóluefnum þá getum við farið að hafa opna daga eftir bóluefnum og auglýst: nú erum við að nota þetta bóluefni,“ segir Kamilla.

Þá getur fólkið, sem var búið að fá boð um bólusetningu en vildi ekki bóluefnið sem boðið var, fengið að mæta þegar auglýst verður. „Við vitum ekki hvenær þetta verður. Þetta verður í fyrsta lagi einhvern tímann í sumar. Þannig að einstaklingar sem eru með mikla áhættu á alvarlegri COVID-sýkingu sem kjósa að bíða, eru mögulega að setja sig í hættu á alvarlegri COVID-sýkingu í millitíðinni,“ segir Kamilla. Meðan smit eru fá í samfélaginu sé áhættan þó minni.