Fékk óvæntar ráðleggingar frá bankastarfsmanni

Mynd: RÚV / RÚV

Fékk óvæntar ráðleggingar frá bankastarfsmanni

30.04.2021 - 11:29

Höfundar

Söknuður helltist yfir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur á árinu og hún notaði hann til að losna við „ritstopp“ sem hafði hrjáð hana síðan hún hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin í janúar. Hún segir að það þurfi ekki að örvænta þó hugmyndabrunnurinn tæmist, það sé tímabundið og skapandi ástand. Vinur hennar sem vinnur í banka kenndi henni það.

Margir þeirra sem starfa við sköpun eða stunda skapandi tómstundir þekkja það að vilja finna upp á einhverju nýju eða reyna að halda áfram með verk í vinnslu, en komast ekki áfram. Oft er þetta tímabundið ástand en getur verið afar hvimleitt og gjarnan er því lýst sem hugmynda- eða ritstíflu. Elísabet Kristín Jökulsdóttir ræddi um ritstíflu við Lestina á Rás 1 þar sem hún var á leið frá heimili sínu í Hveragerði til Reykjavíkur til að vera viðstödd frumsýningu á leikriti sínu, Haukur og Lilja - Opnun. Leikritið var sýnt í Ásmundarsal þar sem Edda Björg Eyjólfsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson fóru með hlutverk hjóna sem eiga erfitt með að koma sér af stað í veislu.

Stíflan er ofmetin

Elísabet Kristín hefur skrifað í fjörutíu ár en kveðst aldrei hafa upplifað hina meinlegu ritstíflu, allavega ekki með því nafni. „Ég kalla þetta ritstopp, að maður stoppi stundum. Ég held að svona stífla sé bara ofmetin.“ Þegar ritstoppið geri vart við sig segir hún hyggilegast að bíða og gera eitthvað annað rétt á meðan því hugurinn þurfi rými til að vinna.

Ráðleggingar úr óvæntri átt

Þetta eru ráðleggingar sem hún hefur sjálf fengið úr óvæntri átt. „Vinur minn, sem er bankamaður og maður heldur alltaf að bankamenn séu svo straight, hann sagði þetta. Núna ertu stopp í sögunni og verður bara að bíða þar til hún heldur áfram.“ Verði biðin mjög löng geti verið sniðugt að bera listaverkið undir einhvern sem maður treystir, „til að örva sig og geta haldið áfram.“

Handritið að verða tilbúið

Elísabet vinnur að nýju handriti sem hún hyggst gefa út sem fyrst. Hún bað vinkonu sína nýverið að lesa yfir fyrir sig og hlaut mikið lof frá henni. „Hún sagði: Þetta er bara frábært og fullkomin bók, hún er bara tilbúin,“ segir hún. „Mér fannst ég kannski þurfa að skrifa fullt meira en ég tók mark á vinkonu minni.“

Í janúar hlaut Elísabet Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bók sína Aprílsólarkulda sem kom út í haust. Eftir að hafa tekið við þeim kveðst hún hafa farið í tímabundið ritstopp. „Það er oft sagt að rithöfundar fái ritstíflu eftir að þeir fá verðlaun,“ segir hún. Það hefur þó ekki varið lengi fyrst hún hefur nú þegar klárað uppkast að nýrri bók, aðeins þremur mánuðum síðar. Bókin fjallar um mæðgur en hugmyndin kom til Elísabetar þegar hún var að fara í gegnum mublur og hluti sem minntu hana á móður sína. „Ég hafði verið að raða í heilt ár eftir að mamma mín dó. Raða húsgögnum, myndum og öllu upp á nýtt.“

Reyndi að hylma yfir söknuðinn með því að raða

Hún spurði sig loks eftir miklar tilfæringar hvers vegna hún væri að raða. „Þá kom þessi rosalegi söknuður og ég var að reyna að hylma yfir söknuðinn með því að raða. Þá saknaði ég mömmu minnar svona mikið en átti erfitt með að viðurkenna að ég saknaði hennar því sambandið okkar á milli var svo erfitt oft og flókið. Alls konar sjálfræðissviptingar, og bara á báða bóga erfitt.“

En söknuðurinn var mikill, „þrátt fyrir allt, og þrátt fyrir hvernig sambandið hafði verið. Þá byrjaði ég bara söguna í sjálfsævisögulegum tóni,“ segir hún. „Maður er að vinna með það sem maður lendir í.“

Lesendur tengja við sjálfsævisögulegan texta

Í Aprílsólarkulda byggir Elísabet líka á eigin reynslu og sambandi sínu við föður sinn og móður. Hún hefur oft lent í því að þegar fólk les sjálfsævisögulega texta hennar að það þakki henni fyrir að lýsa tilfinningum sem þau hafa sjálf fundið. „Ég veit að ef ég er að skrifa um sjálfa mig þá finnur það samhljóm með öðrum. Þá er annar sem kannast við það og getur leyst það úr læðingi, hvort sem er skáldlega eða persónulega,“ segir Elísabet.

Þegar hún fór að hafa áhyggjur af því að skrifa of mikið um sjálfa sig skoðaði hún útgefnar bækur sínar og áttaði sig á að umfjöllunarefnið er oft eitthvað allt annað. „Ég hef skrifað um fótbolta, lúðrasveitinga og fólk sem ég hef hitt á götunni,“ nefnir hún sem dæmi. „En ég nota sjálfa mig mjög mikið. Um leið og ég skrifa um sjálfa mig kemur önnur vídd í það.“

Ritstoppið sem Elísabet fann fyrir fyrr á árinu segir hún að hafi verið eins og aðrar meinta ritstíflur, skapandi ástand. „Maður byggir upp stíflu og þegar hún brotnar kemur extra sköpunarkraftur,“ segir hún að lokum.

Anna Marsibil Clausen ræddi við Elísabetu Jökulsdóttur í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Ég var svo harmi lostin yfir að veikjast á geði“

Bókmenntir

Elísabet, Arndís, Hulda og Sumarliði verðlaunuð

Bókmenntir

Hvergerðingar sérfræðingar í að taka á móti furðufuglum