Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fékk ekki viðunandi leiðbeiningar vegna heimsóknarbanns

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Settur umboðsmaður Alþingis telur að stjórnvöld hafi ekki veitt hjónum viðunandi leiðbeiningar þegar hjúkrunarheimili synjaði eiginmanninum að heimsækja eiginkonu sína á hjúkrunarheimili hennar í kórónuveirufaraldrinum. Hjónin voru ekki upplýst um að þau gætu kært ákvörðunina til heilbrigðisráðuneytisins.

Eiginmaðurinn sótti um undanþágu frá heimsóknarbanninu þegar fyrsta bylgjan var í gangi á síðasta ári. Þeirri beiðni var hafnað og leituðu hjónin í framhaldinu til landlæknis.

Embættið óskaði eftir skýringum frá heilbrigðisstofnuninni sem rekur hjúkrunarheimilið og með hvaða hætti þjónusta við eiginkonuna væri tryggð í fjarveru eiginmanns hennar.  Landlæknisembættið komst síðan að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til frekari athugunar og taldi málinu því lokið.

Hjónin leituðu til heilbrigðisráðuneytisins þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum og niðurstöðu Landlæknisembættisins. Ráðuneytið fór yfir málið og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til gera athugasemdir við afgreiðslu embættisins. Það benti jafnframt á önnur úrræði sem væru til staðar, meðal annars að hægt væri að leggja inn formlega kvörtun til embættisins vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu.

Umboðsmaður segir að af svari ráðuneytisins verði ekki séð að það hafi tekið neina afstöðu til þeirrar ákvörðunar að synja beiðni hjónanna um að eiginmaðurinn fengi undanþágu til að heimsækja eiginkonu sína.

Umboðsmaður telur því ráðuneytið ekki hafa uppfyllt þá skyldu sína að láta það koma skýrt fram að hjónin gætu kært ákvörðunina til ráðuneytisins. Hann minnir á að erindi stjórnvalda til borgaranna eigi að vera nægjanlega skýr til að þeir geti gert sér grein fyrir réttarstöðu sinni „ekki síst þegar teknar séu íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir.“ Þá beri þeim að kanna hvort þau erindi sem berast feli í sér stjórnsýslukæru.

Þar sem ráðuneytið fjallaði ekki efnislega um þá ákvörðun hjúkrunarheimilisins að hafna beiðni um undanþágu frá heimsóknarbanni taldi umboðsmaður sig ekki geta fjallað frekar um málið. Hann segir jafnframt að það kunni að hafa takmarkaða þýðingu fyrir hjónin að kæra synjun á beiðni um undanþágu til ráðuneytisins þar sem takmarkanir á heimsóknum séu hugsanlega ekki lengur fyrir hendi.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV