Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vegurinn til Mjóafjarðar opnaður

29.04.2021 - 17:26
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin/Hafþór Ægisson
Vegurinn til Mjóafjarðar hefur nú verið opnaður. Íbúar Brekkuþorps komast því leiðar sinnar landleiðina, en þangað hefur ekki verið fært síðan í desember.

Það tók Vegagerðina tvo daga að moka Mjóafjarðarheiði og á snjóþyngstu köflum nær stálið í tveggja og hálfs metra hæð. Talsvert minni snjór var þó á heiðinni nú en í fyrra þegar moksturinn tók fjóra daga.

Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin/Ari B Guðmundsson
Stálið nær í allt að tveggja og hálfs metra hæð

„Leiðin er fær fjórhjóladrifnum bílum til að byrja með en sólin er þó fljót að éta sundur klakann sem liggur á veginum,“ segir Ari B. Guðmundsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði, í frétt á vef Vegagerðarinnar.

Það búa um tíu manns í Mjóafirði yfir veturinn og á meðan landleiðin er ófær er eina leiðin til og frá þorpinu sjóleiðis. Þá siglir póstbáturinn Björgvin milli Brekkuþorps og Neskaupstaðar tvisvar í viku.