Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þungunarrof heimilt ef þungunin er afleiðing nauðgunar

epa09165970 Activists from Ecuadorian feminist groups demonstrate in favor of the decriminalization of abortion in Quito, Ecuador 28 April 2021. The Constitutional Court of Ecuador is holding a debate on the decriminalization of abortion in cases of rape.  EPA-EFE/Andrés Avila
Baráttukonur fyrir rétti kvenna til að ráða eigin líkama halda málstaðnum á lofti utan við byggingu stjórnlagadómstólsins í Quito, höfuðborg Ekvadors. Mynd: EPA-EFE - EFE
Stjórnlagadómstóll Ekvadors úrskurðaði í gær að heimila skuli þungunarrof ef þungunin er afleiðing nauðgunar. Umboðsmaður mannréttinda í Ekvador greindi frá þessu á Twitter og sagði að þessa niðurstöðu mætti þakka „þeim konum og kvenréttindasamtökum sem háð hafa þrotlausa baráttu fyrir sanngjarnara samfélagi og auknu jafnrétti."

Hingað til hefur þungunarrof því aðeins verið leyft í Ekvador að líf og heilsa móðurinnar sé í hættu eða þungunin afleiðing nauðgunar konu með þroskaskerðingu. Viðurlögin við ólögmætu þungunarrofi eru allt að þriggja ára fangelsi. „Frá og með deginum í dag verður enginn þolandi nauðgunar [sem rýfur meðgöngu] látinn svara til saka, segir í Twitter-færslu hins ekvadorska umboðsmanns mannréttinda.

2.500 barnungir þolendur nauðgara ala börn á ári hverju

Samkvæmt gögnum sem embætti hans hefur tekið saman undirgangast sex ekvadorskar stúlkur þungunarrof á degi hverjum og rekja má 80 af hverjum 100 þungunum stúlkna undir 14 ára aldri til kynferðisofbeldis. Samkvæmt tölum kvenréttindasamtaka í Ekvador ala um 2.500 stúlkur yngri en 14 ára barn þar í landi á ári hverju, eftir að hafa verið nauðgað.

Ekvadorþing felldi árið 2019 frumvarp sem heimilaði þungunarrof á grundvelli nauðgunar og alvarlegra fósturgalla. Réttur kvenna til þungunarrofs er afar takmarkaður í flestum ríkjum Rómönsku-Ameríku og aðeins fjögur þeirra, Kúba, Gvæjana, Úrúgvæ og, síðan í janúar á þessu ári, líka Argentína, viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt kvenna hvað þetta snertir. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV