Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sjö diplómatar fjögurra Evrópulanda reknir frá Moskvu

29.04.2021 - 01:55
epa09165431 A view of Slovakia embassy in Moscow, Russia, 28 April 2021. Three employees of the Slovak embassy in Moscow were declared persona non grata to leave Russia by the end of the day on 05 May 2021. This is a response to the announcement of persona non grata declared on three employees of the Russian embassy in Bratislava.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússnesk yfirvöld tilkynntu í gær sjö diplómötum frá fjórum ríkjum Evrópusambandsins að þeir yrðu að yfirgefa Rússland innan viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá rússneska utanríkisráðuneytinu. Þrír þeirra sem vísað er úr landi starfa við sendiráð Slóvakíu en hinir fjórir eru frá Eistlandi, Lettlandi og Litáen.

Brottvísanirnar eru svar Rússa við brottvísun rússneskra stjórnarerindreka frá löndunum fjórum síðustu daga sem allar má rekja til meintrar aðildar rússneskra leyniþjónustumanna að mannskæðum sprengingum í sprengiefna- og vopnageymslu í Tékklandi fyrir nokkrum árum.

Tékkar ráku á dögunum 18 starfsmenn rússneska sendiráðsins í Prag úr landi vegna þessa og Rússar svöruðu um hæl með brottrekstri 20 tékkneskra diplómata frá Moskvu.

Rússar fordæma fjandsamlegar samstöðuaðgerðir 

Slóvakar sýndu grönnum sínum Tékkum stuðning í verki með því að vísa brott þremur starfsmönnum rússneska sendiráðsins í Bratislava litlu síðar og nú hafa Rússar svarað í sömu mynt.

Í yfirlýsingu rússneska utanríkisráðuneytisins eru Slóvakar sagðir sýna „ögrandi og andrússneskri herferð Tékka óverðskuldaða samstöðu“ og það skaði óhjákvæmilega hið góða samband sem löngum hafi ríkt milli Rússlands og Slóvakíu.

Eystrasaltslöndin þrjú fá líka yfirhalningu í yfirlýsingu ráðuneytisins. „Löndin halda sig við sína fjandsamlegu afstöðu gagnvart landi okkar. Og í þessu máli skýla þau sér á bak við gervisamstöðu með geðþóttaaðgerðum Tékka gegn Rússlandi," segir í yfirlýsingunni.

Ekki bara í Evrópu

Það er mikil hreyfing á rússneskum diplómötum og diplómötum annarra þjóða í Rússlandi um þessar mundir því fyrr í þessum mánuði vísuðu Bandaríkjamenn tíu rússneskum sendiráðsstarfsmönnum úr landi og Rússar ráku þá tíu bandaríska sendiráðsstarfsmenn úr landi í staðinn.