Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mesta verðbólga í átta ár

29.04.2021 - 09:33
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Verðbólga síðustu tólf mánaða mældist 4,6 prósent í apríl og hefur nú mælst yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fjóra mánuði í röð, eða allt þetta ár. Verðbólgan hefur ekki verið meiri síðan í febrúar 2013 þegar hún mældist 4,8 prósent. Verðbólga fór síðast yfir fimm prósent í júní 2012 þegar hún mældist 5,4 prósent og fór þá hratt lækkandi eftir mikla verðbólgu í kringum hrun.

Húsnæðiskostnaður, sem hækkaði um tvö og hálft prósent, hefur mest áhrif til aukningar verðbólgu, hann hækkar neysluverðsvísitöluna um 0,4 prósent. Því næst kemur hækkun á mat og drykkjarvörum um 1,1 prósent sem skýrist að mestu af hækkun á verði mjólkurvara. 

Útreikningur á verðbólgu hefur tekið breytingum þar sem Hagstofa Íslands leitast við að uppfæra mælitæki sín árlega til að endurspegla breytingar í einkaneyslu heimilanna. Þetta er gert á ári hverju með því að uppfæra skiptinguna í neyslu landsmanna en aðferðafræðin er sú sama. Reynt er að draga fram langtímaþróun á neysluvenjum landsmanna með því að skoða neysluna á þriggja ára tímabili. Í færslu á vef Hagstofunnar er bent á að neyslumynstur fólks hafi tekið óvenjumiklum breytingum síðasta árið vegna kórónuveirufaraldursins og viðbragða við honum. Dregið hefur úr ferðalögum til útlanda og aðgengi að margvíslegri þjónustu og viðburðum er skert. Þess vegna var talið nauðsynlegt að taka tillit til breytinga síðasta árs við útreikning verðbólgunnar.