Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Jarðskjálfti 3,8 að stærð

29.04.2021 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Jarðskjálfti 3,8 að stærð varð skammt frá Eiturhóli nærri Nesjavöllum klukkan rúmlega hálf tólf í morgun og fannst víða á höfuðborgarsvæðinu, í Hveragerði, á Laugarvatni, á Akranesi og í Kjós. Einar Bessi Gestsson náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að virkni hafi verið þarna undanfarna daga innan Hengilssvæðisins. Þessi skjálfti komi í kjölfar smærri skjálfta.

Einar Bessi segir þetta ekki óvenjulegan skjálftastað þótt þetta sé utan þess sem sjónum hafi helst verið beint að undanfarna mánuði. Þarna hafi komið hrinur áður enda sé þetta innan Hengissvæðisins á jarðskjálftasprungum sem tengist því. Þarna hafi verið álíka skjálftavirkni aðeins sunnar í september og nóvember í fyrra og stærsti skjálfinn þá mælst 3,7 að stærð. 

Hann segir útilokað að skjálftinn skýrist af niðurdælingu á Nesjavöllum. Veðurstofan sé í góðu sambandi við Orkuveituna og þar sé ekki verið að dæla niður núna og ekki heldur undanfarna mánuði.  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV