Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hjartveikir með áhyggjur af aukaverkunum AstraZeneca

29.04.2021 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jónsson - RÚV
Hjartalæknir fær tugi símtala á dag frá hjartveiku fólki sem hefur áhyggjur af aukaverkunum af bóluefni AstraZeneca. Almennt sé þó ekki ástæða til að hafa áhyggjur.

Hjartalæknar hafa fengið fjölmargar fyrirspurnir frá hjartveiku fólki sem hefur áhyggjur af aukaverkunum af bólusetningu. Símhringingar til Hjartamiðstöðvarinnar í Kópavogi telja nú tugi á dag og hefur fjölgað mikið með stórum bólusetningadögum síðustu vikna. 

„Við höfum fengið mjög margar fyrirspurnir síðustu daga og það hefur verið heilmikið álag tengt þessu, heilmikið viðbótarálag. Fólk er að hringja og hefur áhyggjur,“ segir Axel F. Sigurðsson hjartalæknir hjá Hjartamiðstöðinni.

Áhyggjurnar bundnar við AstraZeneca

Hann segir að hér um bil allar fyrirspurnirnar varði einungis bóluefnið frá AstraZeneca og hugsanlega hættu á sjaldgæfum blóðtöppum. Þessi aukaverkun hefur til dæmis orðið til þess að Norðmenn og Danir hafa hætt að nota bóluefnið. Hér á Íslandi er miðað við að AstraZeneca sé ekki gefið fólki undir sextugu eða þeim sem teljast í áhættuhópi.

„Þetta eru hópar sem eru með ákveðna sjúkdóma. Aðallega blóðsjúkdóma, blóðflöguvandamál og svo er þetta líka fólk sem hefur fengið það sem kallast sjálfsprottnir blóðtappar sem eru blóðtappar sem myndast bláæðamegin í æðakerfinu okkar. Langflestir okkar skjólstæðinga geta fengið AstraZeneca bóluefnið og við teljum bara að þeir eigi að þiggja það.“ 

Ekki ástæða til að óttast

Þau sem falla undir þennan áhættuhóp eiga að vera á skrá og þar af leiðandi ekki boðið bóluefni frá AstraZeneca til að byrja með. 

„Auðvitað verður maður í hverju tilviki þegar sjúklingur hringir og spyr þá verður maður að fara í gegnum gögnin til að ganga úr skugga um að þetta sé allt saman í lagi. En langoftast er þetta bara að stappa stálinu í fólk og segja að „það er ekkert hjá þér sem gerir það að verkum að maður þurfi að álykta sem svo að annað bóluefni sé betra fyrir þig. Ef þú kýst að gera það ekki þá bara mætirðu síðar og þú færð eitthvað annað bóluefni“,“ segir Axel.