Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

hið stutta bréf og hin langa kveðja - Peter Handke

Mynd: Ugla / EPA

hið stutta bréf og hin langa kveðja - Peter Handke

29.04.2021 - 18:09

Höfundar

Hið stutta bréf og hin langa kveðja eftir Nóbelsverðlaunahafann árið 2019, Austuríkismanninn Peter Handke, er bók vikunnar. Verkið kom út fyrir tæpum fimmtíu árum eða árið 1972 og vakti eins og önnur verk Peters Handke á þessum tíma mikla athygli.

Skáldsagan hið stutta bréf og hin langa kveðja er ferðasaga þar sem ferðast er um Bandaríkin þver og endlöng. Sögumaður er að ná sér eftir erfiðan skilnað en strax við komuna á fyrsta hótelið kemur í ljós að eiginkonan fyrrverandi hefur elt hann yfir hafið. Hann reynir að flýja stöðugar ofsóknir hennar og hótanir um leið og hann getur ekki slitið sig úr þessu samhengi. Það má því ekki á milli sjá hvort eltir hvort. En sögumaður sökkvir sér líka á ferðalagi sínu ofan landslagið og menninguna sem umlykur hann, kunnuglegt allt saman en líka svo ókunnugugt. Skáldsagan hið stutta bréf og hin langa kveðja er því líka minningasaga, sögumaður ber nýja skynjun og nýja þekkingu stöðugt saman við það þegar þekkta og eitt sinn skynjaða í öðrum heimshluta og á öðrum tíma almennt og í hans eigin lífi.

Mynd með færslu
 Mynd: Peter Handke online
Leið sögumanns skáldsögunnar hið stutta bréf og hin langa kveðja um Bandaríkin

Þá er hið stutta bréf og hin langa kveðja saga um ást í margvíslegum myndum: tilhugalíf sem rennur út í sandinn, ást móður á barni; bálandi ást sem byggir ströngum óskrifuðum reglum um aðgreiningu sem og ást sem þegar hefur splundrast.

Eina staðfasta ást sögumanns er kannski ástin á dægurmenningu, kvikmyndum og poptónlist sem kannski í hans huga er sannasta tjáningin á aðstæðum og umhverfi, landslagi og tilfinningum. Texti er þó tjáningartæki hans sjálfs og því snýst bókin ekki síst um það að koma orðum að því sem er skynjað. „Bókin fjallar svo mikið um skynjunina og hvernig maður kemst framhjá klisjunum; einnig saga Bandaríkjanna er hér skoðuð, ímynd þeirra af sjálfum sér og um drauminn,“ segir þýðandinn Árni Óskarsson. 

Þátturinn Bók vikunnar er á dagskrá rásar 1 sunnudaginn 2. maí. Umsjónarmaður er Jórunn Sigurðardóttir og viðmælendur hennar um skáldsöguna hið stutta bréf og hin langa kveðja eru Ásdís Thoroddsen kvikmyndagerðarkona og Snæbjörn Arngrímsson rithöfundur.