Fimm milljarða baðlón opnað í Kópavogi á morgun

29.04.2021 - 19:25
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Nýtt baðlón, Sky Lagoon, verður opnað á Kársnesinu í Kópavogi í fyrramálið. Kostnaður við verkefnið nemur fimm milljörðum króna. Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon, segir að hugmyndin sé að skapa griðastað á miðju höfuðborgarsvæðinu.

„Sky Lagoon er í stuttu máli upphefð íslenskrar baðmenningar, íslenskrar náttúru og íslensks arkítektúrs. Og hérna ætlum við að bjóða fólk velkomið frá og með morgundeginum,“ segir Dagný.

Það var stór hópur hönnuða sem kom að hönnun Sky Lagoon. Það sem vekur ekki hvað síst athygli í hönnun þess er 75 metra langur svokallaður óendanleikakantur sem skapar þá tilfinningu að hafið og lónið renni saman í eitt.

Það er búið að opna mörg baðlón víða um land á undanförnum árum, hvernig er þetta ólíkt hinum?

„Hérna erum við að bjóða upp á meðferð bæði á líkama og sál. Og áhrifin á líkamann koma í gegnum sjö skrefa spa ferðalag sem er innifalið í öllum miðum. Og það er algjört æði. En að auki er það útsýnið, róin, að horfa á sjóinn, kyrrðin í miðri höfuðborginni, hún veitir þér svo mikla hugarró, og það er svo gott fyrir okkur núna að fá frið frá amstri dagsins,“ segir Dagný.

Opna í rólegheitum

Framkvæmdin kostaði um 5 milljarða króna. Að verkefninu stendur fyrirtækið Nature Resort ehf. og kanadíska fyrirtækið Pursuit sem kemur einnig að rekstri Fly Over Iceland. Til að byrja með vinna um 60 manns í lóninu en Dagný segir að þegar Sky Lagoon verði komið í fullan rekstur verði stöðugildin um 110.

Athygli vekur að lónið er ekki ætlað ungum börnum, en þar er 12 ára aldurstakmark. Í maí kostar stakur aðgangur 5.990 en eftir það hækkar verðið í 8.500 krónur. Dagný segir að markhópurinn sé bæði Íslendingar og ferðamenn. 

Hafið þið ekki áhyggjur af því að vera að opna svona stað í miðjum heimsfaraldri?

„Erum við ekki að vonast til þess að við séum að stíga upp úr honum? Við ætlum að opna í rólegheitum og með virðingu fyrir ástandinu. En við vonumst til þess að sumarið verði gott, það fer seint af stað en fer hratt af stað þegar allt fer af stað,“ segir Dagný.