Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bátur dreginn á land með sautján lík innanborðs

29.04.2021 - 02:45
epa09166069 Spanish Salvamento Maritimo's vessel Talia carries a dugout containing 17 dead bodies as it arrives at Los Cristianos' port in Tenerife, Canary Islands, Spain, 28 April 2021. A total of 17 migrants were found dead when they sailed 490 kilometers away from El Hierro island.  EPA-EFE/Ramon de la Rocha
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Trébátur sem sást á reki á milli Afríkustranda og Kanaríeyja fyrr í vikunni er kominn að landi með sautján lík um borð. Björgunarskip spænsku strandgæslunnar tók bátinn í tog og dró hann til Los Cristianos á Tenerife, þar sem floti líkbíla beið á bryggjunni.

Eftir að þrengt var að möguleikum förufólks til að komast frá Afríku til Evrópu yfir Miðjarðarhafið hefur fjölgað mjög í hópi þeirra sem freista þess að sigla til Kanaríeyja frá Afríkuströndum. Sú leið er talin jafnvel enn hættulegri en siglingin yfir Miðjarðarhafið.

Yfir 23.000 komust alla leið í fyrra og rúmlega 4.000 hafa náð landi á Kanaríeyjum það sem af er þessu ári. Minnst 850 drukknuðu eða hurfu á þessari leið á síðasta ári og óstaðfestar heimildir herma að allt að tvöfalt fleiri hafi farist. Farkostirnir sem notaðir eru við þessa fólksflutninga eru iðulega allt í senn litlir, lélegir og yfirfullir. 

Fréttin var uppfærð til samræmis við leiðréttan fjölda látinna um borð í bátnum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV