Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Við erum búin að hægja mjög á öllu í samfélaginu“

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Öll starfsemi í Þorlákshöfn er í hægagangi vegna fjölda smita sem hafa komið þar upp síðustu daga. Þetta segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss. Á vef HSU eru tveimur fleiri skráðir í einangrun í dag en í gær, og því eru staðfest smit í sveitarfélaginu orðin 13.

„Við erum búin að hægja mjög á öllu í samfélaginu,“ segir Elliði. „Grunnskólinn er lokaður, leikskólinn er með lágmarksmönnun og lágmarksþjónustu, bókasafnið er lokað og það eru engar íþróttaæfingar hjá börnum. Og við ætlum bara að bregðast við ástandinu með því að skipta alveg niður í fyrsta gír í lága drifi.“

Aðdáunarvert

Elliði segir að fólk í Ölfusi sé sérstaklega hvatt til þess að huga að sóttvörnum, en fjöldi fólks er í einangrun og sóttkví í sveitarfélaginu. Í gær greindist nemandi við grunnskólann í Þorlákshöfn með staðfest smit og Elliði segir að í morgun hafi 200 manns verið skimaðir í grunnskólanum, bæði nemendur og starfsfólk skólans.

Leikskólinn í Þorlákshöfn er opinn og segir Elliði að það sé meðal annars gert til þess að fólk í framlínustörfum geti mætt í vinnuna. For­eldr­ar eru hins vegar hvatt­ir til að halda börn­um sín­um heima ef þeir mögulega geta.

„Og það er alveg aðdáunarvert hvað foreldrar ungra barna og samfélagið almennt er einhuga í að ná tökum á veirunni með þessum hætti og komast þar með hjá veikindum og enn meira íþyngjandi aðgerðum,“ segir Elliði.