Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þórður í Skógum 100 ára - „Raunverulega stórt ævintýri"

Þórður í Skógum á 100 ára afmælinu sínu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV

Þórður í Skógum 100 ára - „Raunverulega stórt ævintýri"

28.04.2021 - 22:16

Höfundar

Þórður Tómasson, safnvörður í Skógum undir Eyjafjöllum segir að sér líði vel miðað við þau ár sem eru að baki, en hann á hundrað ára afmæli í dag.

Seint verður hægt að tíunda framlag Þórðar í Skógum til menningararfs þjóðarinnar. Hann var ráðinn til Skógasafns 1959 og á tíma hans þar óx það upp í að vera stærsta minjasafn landsins utan Reykjavíkur. Nú fagnar Þórður hundrað árum. Þórður var í viðtali í sjónvarpsfréttum í kvöld. 

„Mér líður vel miðað við þann árafjölda sem býr að baki."

Þórður hefur skrifað fjölda bóka og er ekki af baki dottinn. Í tilefni aldarafmælisins sendir hann frá sér þá þrítugustu. Stóruborg, sem rekur söguna af Þórði og samnefndum bæjarhól undir Eyjafjöllum sem var að hverfa vegna landrofs.

„Sjórinn gekk á jafnt og þétt og ég hófst handa 1960 við að vitja um Stóruborg, ég átti margar ferðir í hólinn á hverju ári og safnaði ýmsum minjum sem sjórinn var að brjóta upp á land."

Ritverk sín hefur Þórður að miklu leyti byggt á samtali við eldra fólk, en hann hugsar með hlýju til lífs og gleði fyrri tíma.

„Það er stórkostlegt að hugsa til þess hvernig fólk lifði sig inn í söng og gleði. Allur almenningur kunni ljóð þjóðskáldanna og lögin."

Einn helsta grip safnsins telur hann Skógakirkju, sem var vígð 1998. Hún var byggð á minjum úr gömlum kirkjum sem Þórður hafði safnað.

„Kirkjan hún felur í sér byggingarhluta úr um tuttugu kirkjum og svo kirkjugripi víðs vegar að. Þetta setur mikinn svip á safnsvæðið í Skógum og þegar ég lít yfir þetta í heild þá er þetta raunverulega stórt ævintýri."