Svolítið eins og þú sért að kafna í ilmvatnsfýlu

Mynd: María Carmela Torrini / María Carmela Torrini

Svolítið eins og þú sért að kafna í ilmvatnsfýlu

28.04.2021 - 09:14

Höfundar

María Carmela Torrini var 16 ára þegar hún var greind með einhverfu. Hún segir að það hafi verið gott að fá loksins orð yfir það sem hún væri og fá að vita hún væri ekki bara skrítin. Fríða María ræddi við Maríu Carmelu í Krakkakastinu í tilefni af bláum apríl .

María Carmela er 22 ára. Hún var 16 ára var greind með einhverfu sem telst vera frekar seint. Hún segir að það hafi verið svakalegur léttir og opnað augu hennar fyrir mörgu þegar hún horfði til baka. Þá áttaði hún sig að einkenni einhverfunnar höfðu fylgt henni lengi. Auk þess hafi verið mikill léttir að hafa fengið orð yfir það sem hún var. „Svona staðfesting, þú ert ekki bara skrítin, þú ert einhverf." 

Einhverfan hefur margvísleg áhrif á líf Maríu Carmelu. Hún segir að það geti til dæmis verið erfitt að fara í búðir þar sem ljósin eru sterk. Þá litar einhverfan samskipti hennar við aðra, til dæmis þegar hún er að kynnast nýju fólki. Þá verði hún ótrúlega spennt og þeim sem vita ekki að hún er með einhverfu geti fundist það óþægilegt eða skrítið. „Það er allt svo ýkt, bæði tilfinningarnar og viðbrögðin,“ segir María Carmela. 

Í þættinum segir hún Fríðu Maríu líka frá því hvernig einhverfukast lýsir sér. Það byrjar yfirleitt þegar áreitið í kringum hana er mikið og skynfærin verða næmari. Hún lýsir því eins og að vera að kafna í ilmvatnsfýlu og allt í kringum hana verður risastórt og yfirþyrmandi.

„Þú verður pínulítil eins og sandkorn og heimurinn í kringum þig verður risastór.“

Það getur svo valdið því að hún missi alla stjórn á líkamanum þar til hann höndlar ekki meira og slekkur einfaldlega á sér. María Carmela segist ekki geta talað fyrir alla sem fá einhverfuköst en henni finnist þægilegast að komast á stað sem er rólegur og dimmur til þess að jafna sig. 

Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að María geri það sem hana langar til. Hún segist vera þrautseig og koma hlutunum í gang ef hún vill að þeir verði að einhverju.

„Ég gefst ekki auðveldlega upp, eða yfirleitt þá gefst ég aldrei upp heldur bara finn nýjar leiðir,“ bætir hún við.

Fyrir þremur árum vann María Carmela til að mynda að stuttmyndinni Reglur leiksins með vinum sínum í kvikmyndagerðarnámi. Myndin segir frá Lúnu sem er á einhverf og finnst ekki gaman að tala við fólk. María segir að hún og Lúna séu svipaðar enda hafi hún haft sjálfa sig í huga þegar hún skrifaði persónuna. „Ég er aðeins meira út um allt, svolítið örari en hún. En við erum báðar svona ákveðnar og hugaðar stelpur,” segir María. Handritið er byggt á dagbókum hennar sjálfrar sem hún hélt þegar hún var á BUGL og verið var að greina hana með einhverfu. 

María segir að það sé klárlega með því skemmtilegra sem hún gerir að vinna við kvikmyndagerð, skrifa og leika og það sé markmiðið að halda því áfram. Hún sé samt tilbúin að taka á móti hverju sem lífið færir henni. „Mig langar nefnilega líka rosalega mikið að flytja upp í sveit og eignast hænur,” segir hún hlæjandi.

María Carmela ræddi um einhverfu í Krakkakastinu á þriðjudag. Þáttinn í heild sinni má hlusta á í spilara KrakkarRÚV.