Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Stjórnarkreppu afstýrt í Finnlandi

28.04.2021 - 13:10
epa09023186 Finnish Prime Minister Sanna Marin (L) and Estonian Prime Minister Kaja Kallas (R) pose for a photo as they meet at the House Kesäranta in Helsinki, Finland, 19 February 2021.  EPA-EFE/MAURI RATILAINEN
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands. Mynd: EPA-EFE - COMPIC
Stjórnarflokkarnir í Finnlandi hafa náð samkomulagi um fjárlagaramma eftir rúmlega viku samningaþóf. Yfirvofandi stjórnarkreppu hefur verið afstýrt. Sanna Marin forsætisráðherra Finna tilkynnti eftir fund leiðtoga stjórnarflokkanna í morgun að náðst hefði samkomulag og málamiðlun í erfiðustu málunum.

Hún sagði að enn væri verið að fínpússa samkomulag og ríkisstjórnin gæti nú haldið starfi sínu áfram. Ágreiningur hefur verið um efnahagsaðgerðir næstu ára; hvernig eigi að koma Finnlandi út úr COVID-kreppunni og hve langt ríkissjóður geti seilst í lántökum. Fullyrt hefur verið að Annika Saarikko formaður Miðflokksins hafi hótað stjórnarslitum en Marin hefur þó ekki viljað við það kannast. Saarikko sagði í morgun að samkomulagið sem hefði náðst væri ekki fullkomið en flokksmenn sínir gætu sætt sig við það.