Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sótt að Boris Johnson vegna endurbóta á íbúð hans

28.04.2021 - 14:44
epa09162952 A gerneral view showing the Downing Street in London, Britain, 27 April 2021. British Prime Minister Boris Johnson is facing a barrage of sleaze allegations regarding the financing of his Downing Street flat, while also denying claims that he said, 'he would rather let bodies pile high', than impose a third lockdown on the nation.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Opinber rannsókn er nú hafin á því hvernig endurbætur á íbúð á efri hæð Downingstrætis 11 í London voru fjármagnaðar. Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands býr í íbúðinni ásamt unnustu sinni.

Simon Case, ráðherra í ríkisstjórn Borisar Johnson, sat í gær fyrir svörum í þinginu og var þá spurður út í málið. Rótin af því var að Dominic Cummings, fyrrverandi ráðgjafi Johnsons sem var rekinn úr starfi síðasta vetur hélt því fram að Johnson ætlaði að fjármagna endurbæturnar með leynilegum fjárframlögum annars staðar frá. Case sagði þar að Johnson hefði beðið sig að gera athugun á fjármögnun þessara endurbóta.

Verkamannaflokkurinn fór hins vegar fram á það að breska kosningaeftirlitið, sem hefur líka pólitísk fjárframlög á sinni könnu, myndi taka málið til rannsóknar. Í morgun tilkynnti stofnunin að gerð yrði opinber rannsókn á því. Rökstuddur grunur væri um að eitt eða fleiri brot hefðu verið framin.

Endurbæturnar sem voru gerðar á íbúðinni voru býsna umfangsmiklar. Forsætisráðherrann fær 30 þúsund pund á ári frá breska ríkinu til að halda íbúðinni við en áætlað er að þessar endurbætur hafi kostað 6-7 sinnum meira. Í ljósi ásakana Dominic Cummings hefur Verkamannaflokkurinn óskað eftir upplýsingum um raunverulegan kostnað, og hverjir greiddu hann. Samkvæmt reglum þarf að upplýsa um öll stór fjárframlög til stjórnmálamanna innan 28 daga.

Boris Johnson sat fyrir svörum í vikulegum fyrirspurnartíma í breska þinginu og brást reiður við ásökunum frá Keir Starmer leiðtoga Verkamannaflokksins um siðleysi og flottræfilshátt. Johnson kom sér þó ítrekað hjá því að svara því hvort einhver annar hefði komið að fjármögnun þessara endurbóta - aðeins að hann hefði greitt þann kostnað sem honum bæri að greiða. Ef einhverju frekara væri við þetta að bæta yrði það upplýst þegar fram líða stundir.

Rannsókn þingmannanefndarinnar mun lúta að því hvort fjárframlög hefðu borist í tengslum við þessar framkvæmdir sem hefði átt að tilkynna, og ef svo er hvort þeirri tilkynningaskyldu var sinnt.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV