Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Okkur hefur alltaf komið mjög vel saman“

Mynd: RÚV / RÚV

„Okkur hefur alltaf komið mjög vel saman“

28.04.2021 - 20:30

Höfundar

Það er fimm ára aldursmunur á systkinunum Þórarni og Sigrúnu Eldjárn sem sjaldan hafa deilt í gegnum tíðina og alltaf verið vel til vina. Þau hafa sent frá sér þrettán barnaljóðabækur saman þar sem Þórarinn yrkir vísur og Sigrún myndskreytir. Sú nýjasta nefnist Rím og roms og er sumarleg ljóðabók sem kom út á dögunum.

Rím og roms er barnaljóðabók eftir systkinin Sigrúnu Eldjárn, sem myndskeytir, og Þórarinn Eldjárn, sem yrkir ljóðin. Þau hafa áður samið saman nokkrar bækur í svipuðum dúr. „Já, nokkuð margar. Þú varst búin að telja, ég ruglast alltaf,“ segir Sigrún, aðspurð um fjölda útgefinna verka eftir þau, og lítur á bróður sinn. „Þetta er níunda bókin með þessu sniði, þar sem ég geri ljóðin fyrst og svo koma myndskreytingar. Svo höfum við gert fjórar í viðbót þar sem myndirnar hafa orðið til fyrst,“ svarar Þórarinn að bragði.

Bækur þeirra með myndum og kveðskap fyrir börn eru því samtals orðnar þrettán, „og við erum rétt að byrja,“ segir Sigrún. Systkinin voru gestir Egils Helgasonar í Kiljunni þar sem þau ræddu Rím og roms og myndskreyttar vísur fyrir börn.

Það er fimm ára aldursmunur á systkinunum sem sjaldan hafa deilt í gegnum tíðina. „Við erum ekkert að rífast en við erum ekkert að hittast á hverjum degi,“ segir Sigrún. „En okkur hefur alltaf komið mjög vel saman,“ segir Þórarinn.

Hann er eldri og segir það hafa áhrif á fimm ára forskot sitt að hann er sjálfur fæddur fyrir, en systir hans eftir, miðja síðustu öld. „Því fylgir auðvitað ákveðin reynsla og eitt og annað,“ segir hann og Sigrún tekur undir. „Ég er meiri nútímakona.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sumarið er alltumlykjandi í bókinni sem er sólrík og litrík.

Bækur Sigrúnar og Þórarins eru margar orðnar sígildar og má þar nefna bækur á borð við Heimskringla, Óðfluga, Gælur, fælur og þvælur og Stafrófskver. Rím og roms er sérstaklega glaðleg og myndirnar litríkar. Sigrún kveðst hafa lagt áherslu á að hafa myndirnar fjörugar og litina skæra. „Hún er tilvalin í sumargjöf og svona hressandi bók,“ segir Sigrún. „Svo er hún eldfjallarauð en það var nú alveg óvart. Vonandi skilar gleðin sér.“ Þórarinn vonar að bókin geti kveikt ljós í hjörtum lesenda eftir skrýtið ár. „Hún á einhvern veginn að lýsa okkur út úr kófinu,“ segir hann.

Í bókinni má greina kankvíst bull og grínleiki. Þórarinn viðurkennir að barnaljóð hans hafi verið að miklu leyti skrifuð inn í klassíska „bullhefð“ eða nonsense ljóðahefð. Hún eigi rætur í enskumælandi heimi og annars staðar á Norðurlöndum þar sem margir hafi verið á þeim nótum. „Þetta er dálítið mikið í ætt við það og jafnframt að notfæra sér ýmislegt úr íslenskum arfi, eins og bragarhættina og þuluformið.“

Bækurnar hafa vakið lukku hjá eldri en ekki síst yngstu kynslóðinni og mörg börn geta farið með ljóð Þórarins eftir að hafa lesið bækur systkinanna spjaldanna á milli. „Þessar bækur og ljóðin hans Þórarins eru vinsæl hjá börnum og það þarf að lesa þau aftur og aftur. Svo læra þau þetta bara utan að ósjálfrátt og fara svo að búa til eitthvað sjálf,“ segir Sigrún. Og bullið er mikilvægur hluti af ljóðunum og sköpuninni. „Það er svo mikilvægt að bulla svolítið.“

Unga kynslóðin er farin að tileinka sér rím og bull í auknum mæli með því að rappa. Þórarinn fagnar því, þó hann botni ekki alltaf í textunum. „Mér skilst það þó mér hafi aldrei tekist að skilja eitt einasta orð, sem kannski stafar af heyrnadeyfu, ég veit það ekki,“ segir hann. „En í sjálfu sér er bara mjög ánægjulegt að þetta skuli vera unnið á íslensku.“

Þróun ljóðanna frá því Óðfluga kom út fyrir tuttugu árum, má meðal annars greina í því að ljóðmælandinn er farinn að eldast á köflum og er stundum afi sem á barnabörn. Þórarinn, sem sjálfur er orðinn afi, viðurkennir það. „Þetta er bara eðlileg þróun og gangur lífsins,“ segir hann.

Rætt var við systkinin Þórarin og Sigrúnu Eldjárn í Kiljunni.

Tengdar fréttir

Leiklist

Hvorki uppskrúfaður né lágkúrulegur Hamlet

Bókmenntir

Mér finnst ég mest bara hafa verið að skemmta mér