Ofurmáni reis um allan heim

Tveir ofurmánar rísa á þessu ári – sá fyrri reis í gær, sá næsti rís í maí.
epa09162767 The Super Pink Moon is seen rising behind the Nubble Lighthouse on Cape Neddick, in York, Maine, USA, 26 April 2021. The super full moon is named this way because it is at its closest to earth and thus appears bigger than a normal full moon. Cape Neddick Light Station was dedicated by the US Lighthouse Service and put into use in 1879 and is still in use today.  EPA-EFE/CJ GUNTHER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Í veðurblíðunni síðustu daga hefur tunglið leikið stórt hlutverk á næturhimninum. Aðfaranótt þriðjudagsins 27. apríl var fullt tungl – svokallaður bleikur ofurmáni – og sjónarspilið í takt við það.

Fullt tungl í apríl er upp á enska tungu kallað bleikt tungl eða pink moon. Það er ekki vegna þess að tunglið er sérstaklega bleikt í þessum mánuði, heldur er það lenska að kalla fullt tungl eftir hefðum frumbyggja Norður-Ameríku.

En tunglið virtist jafnframt einstaklega stórt á næturhimninum í gær. Það er vegna þess að tunglið gengur eftir sporöskjulaga braut umhverfis Jörðina og er nú um það bil eins nálægt og það kemur. Þegar tunglið er svo nálægt og fullt kallast það ofurmáni.

Tunglið minnkar nú á himninum og sigð myndast í það frá hægri hlið þess, þar til það hverfur endanlega í skuggann af sjálfu sér. Endurnýjun tunglsins er skipt í fjóra fasa sem kallast kvartil. Það tekur tunglið ríflega 29 daga að endurnýja sig og þess vegna birtist fullt tungl jarðarbúum að jafnaði einu sinni í mánuði.

Ljósmyndarar víða um heim gerðu tunglið að viðfangsefni sínu í gær. Í Sydney í Ástralíu læddist máninn yfir Óperuhúsið.

Tunglið reis yfir Nubble-vita á Neddick-höfða í Maine-ríki í Bandaríkjunum. Vitinn hefur þjónað sjófarendum við austurströnd Bandaríkjanna síðan 1879, þegar vitamálastofnun Bandaríkjanna reisti hann. Lauslega áætlað hefur Nubble-viti því séð meira en 1.700 full tungl.

Tunglið sást vel yfir lágreistri byggðinni í vesturbæ Reykjavíkur. Einstaklega gott veður gerði sjónarspilið enn flottara.

Súleimans-moskan á þriðju hæð Istanbúl vakir yfir Bospourssundi, hliðinu milli Evrópu og Asíu. Ofurmáninn var tilkomumikill í dagrenningu á þriðjudagsmorgun.

Ofurmáninn var rauður þegar hann reis yfir Swayambhunath-búddamusterunum í Katmandú í Nepal. Swayambhunath er fornt þorp mustera og helgidóma í Katmandú-dal í Himalayafjöllunum.

Hæsta bygging heims skyggði á fulla tunglið á næturhimninum í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Burj Khalifa-turninn er 830 metra hár. Bygging hans hófst árið 2004 en lauk ekki fyrr en árið 2010. Í honum eru 163 skilgreindar hæðir og efsta hæðin er í 585,4 metra hæð.

28.04.2021 - 12:29