Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Komið að skuldadögum hjá ógnvaldinum í Hollywood

Mynd: EPA / EPA

Komið að skuldadögum hjá ógnvaldinum í Hollywood

28.04.2021 - 12:40

Höfundar

Kvikmynda- og leikhúsframleiðandinn Scott Rudin er einn valdamesti maður Hollywood og Broadway en varla mikið lengur. Eftir tugi ásakana um ofbeldi á vinnustað virðist fullljóst að ógnarstjórn Rudins eigi sér hliðstæðu í kynferðisbrotum Harvey Weinstein: Hún var opinbert leyndarmál sem enginn þorði að hafa hátt um af ótta við afleiðingarnar.

Það er þetta með leyndarmálin. Sum þeirra þyngstu eru bara alls ekki leyndarmál heldur eitthvað sem allir vita af, ræða sín á milli í hálfum hljóðum eða hunsa í einhvers konar sjálfsbjargarviðleitni. Þar til allt springur. 

Það gerðist í máli kvikmyndaframleiðandans og kynferðisbrotamannsins Harveys Weinsteins árið 2017 með afhjúpunum The New York Times. Nú endurtekur sagan sig, í þetta skipti með afhjúpunum The Hollywood Reporter á ofbeldisfullri hegðun Scotts Rudin.

Scott Rudin er, líkt og Harvey Weinstein, fæddur á sjötta áratug síðustu aldar. Hann er, líkt og Weinstein, einn áhrifamesti kvikmyndaframleiðandinn í Hollywood en hann er einnig einn áhrifamesti leikhúsframleiðandinn á Broadway.

Afrekaskráin hlífir einum versta yfirmanni bransans

Rudin á ein Emmy-verðlaun, fyrir heimildarmyndina He Makes Me Feel Like Dancing frá 1984. Hann á ein Grammy-verðlaun, fyrir Book of Mormon, og svo ein Óskarsverðlaun, fyrir No Country for Old Men. Svo á hann hvorki meira né minna en 17 Tony-verðlaun á hillunni, svo mörg að það tekur því ekki að telja titlana. Hann er einn fárra í heiminum sem hafa EGOT-að, það er unnið sér inn Emmy, Grammy, Óskar og Tony-verðlaun. Hann var fyrsti framleiðandinn til að hlotnast sá heiður en hann á auðvitað fullt af öðrum verðlaunum meðal annars fern Golden Globe-verðlaun fyrir Lady Bird, The Hours, The Social Network og the Grand Budapest Hotel, svo eitthvað sé nefnt. 

Ætli það sé ekki meðal annars afrekaskrá Rudins sem hingað til hefur komið í veg fyrir að ofbeldisverk hans kæmust í hámæli. Þau voru eftir allt hluti af hans stjórnarháttum, sem margir myndu halda fram að hefðu gefið vel af sér og allir vissu að hann væri einn versti yfirmaðurinn í bransanum.

Wall Street Journal kallaði hann „Bozz-Zilla“ árið 2005, The Hollywood Reporter sagði Rudin „the most feared man in town“ árið 2010 – þann mann sem flestir í Hollywood óttast. Sjálfur grobbaði hann sig af því að hafa brennt sig í gegnum 119 aðstoðarmenn á aðeins fimm árum. En nú virðist tími harðstjórans á þrotum.

Mölvaði tölvuskjá og blóðgaði aðstoðarmann

Í byrjun apríl birti The Hollywood Reporter grein byggða á fjölmörgum viðtölum við fyrrum starfsfólk Rudins. Greinin hefst á hrekkjavöku árið 2012, sem framan af var ósköp venjulegur vinnudagur í húsakynnum framleiðslufyrirtækisins Scott Rudin Productions, þar til um klukkan korter yfir fjögur, að Rudin reiðist einum aðstoðarmanna sinna fyrir að hafa ekki getað útvegað honum sæti í uppseldu flugi.

„Í bræðiskasti, ku Rudin hafa mölvað tölvuskjá frá Apple á hendi aðstoðarmannsins. Skjárinn mölbrotnaði og unga manninum blæddi svo að hann þurfti neyðaraðstoð. Einn aðili á skrifstofunni lýsti atvikinu sem svo að það hafi hljómað eins og bílslys; glymjandi árekstur málms, glers og útlims. Aðstoðarmaðurinn særði fór á bráðamóttökuna og Rudin hringdi í lögmanninn sinn, samkvæmt öðrum starfsmanni sem var á staðnum þennan hrekkjavöku-eftirmiðdag. Allir aðrir hnöppuðust saman inni í fundarherbergi, algerlega úr jafnvægi.“ 

Vinnudagurinn í fyrirtækinu hófst vanalega klukkan fimm eða sex á morgnana og stóð fram til átta, var 14 tímar í senn. Þennan dag vann enginn til átta. Flestir fóru á barinn eftir vinnu, og reyndu að ná áttum yfir drykk. 

„Við vorum öll í áfalli því við vissum ekki að svona gæti gerst á skrifstofunni,“ segir Andrew Coles, þá yfirmaður í þróunardeild Rudins, en nú umboðsmaður og framleiðandi. „Við vissum að ýmislegt gæti gerst. Þarna voru menn sem sváfu á skrifstofunni, menn sem voru að missa hárið og þróa með sér magasár. Þetta var mjög taugaspennandi umhverfi en þetta atvik var bara einhvern veginn öðruvísi. Það var nýtt stig af klikkun. Skortur á sjálfsstjórn sem ég hafði aldrei séð áður á vinnustað.“

Rekin fyrir að vera með sykursýki

Í grein The Hollywood Reporter er einnig rætt við Caroline Rugo, sem réð sig til starfa hjá Rudin árið 2018. Hún var spennt fyrir starfinu og tilbúin að gefa mikið af félagslífi sínu utan vinnu upp á bátinn til að vinna fyrir svo merkan framleiðanda. Vinnudagurinn hennar hófst alltaf klukkan fimm á morgnana, með því að fara í gegnum tölvupóstsamskipti næturinnar og svo mætti hún á skrifstofuna í New York klukkan sex. Hún var sátt við það. Eini fyrirvarinn sem hún setti var að milli 5:30 og 6:00 á morgnanna fengi hún að taka sér hálftíma í að hreyfa sig, þar sem hún er með sykursýki. Læknir skrifaði upp á mikilvægi þess fyrir hana og Rudin kvittaði undir.

En Rugo var ekki undirbúin fyrir ofríkið og ofbeldið sem starfinu fylgdi. 

„Hann henti fartölvu í gluggann á fundarherberginu og fór síðan inn í eldhúsið þar sem við heyrðum í honum berja á servíettuhaldaranum. Öðru sinni henti hann glerskál í kollega minn úr mannauðsdeildinni. Það er erfitt að segja hvort hann hafi hent henni almennt í áttina að honum eða sérstaklega í hann, en glerskálin lenti á veggnum og mölbrotnaði yfir allt gólfið. Starfsmaðurinn fékk ofsakvíðakast og var fluttur í burtu í sjúkrabíl. Þannig var umhverfið.“

Þetta var árið 2019. Starfsmaðurinn sneri aldrei aftur í vinnuna. Eftir að Rudin flæktist í deilur milli leikarans Nathan Lane og leikstjórans George C. Wolfe, segir Rugo að Rudin hafi ákveðið að kenna henni um. Hann fór fram á að hún annað hvort hætti að fara í ræktina kl. 5:30 eða ynni hraðar. Rugo neitaði og var rekin.

„Ég var rekin fyrir að vera með sykursýki eitt, sem er lögvernduð fötlun,” segir Rugo, sem nú starfar í þróunardeild Netflix. „Ég hefði 100 prósent getað farið í mál við hann en ég gerði það ekki því ég óttaðist að verða sett á svartan lista. Núna hef ég unnið hjá Netflix í eitt og hálft ár og það er eins og rafstuð inn í kerfið mitt, því þetta er einn virðingarfyllsti og framsæknasti vinnustaðurinn þegar kemur að samskiptum starfsfólks. Núna þegar ég hef komið mér vel fyrir hér og er hluti af teymi þar sem mínar skoðanir njóta virðingar og velþóknunar er ekkert mál fyrir mig að tjá mig um Scott. Allir vita bara að hann er algjört skrímsli.“

Grýtti bakaðri kartöflu í höfuð starfsmans

Fjölmargar aðrar ásakanir koma fram í greininni og sumar þeirra hafa komið fram áður. Saga af því þegar hann neyddi annan framleiðanda út úr bifreið og skildi hann eftir á miðri hraðbraut, saga af því hvernig hann og annar yfirmaður í fyrirtækinu ruddu öllu af skrifborði undirmanns og á gólfið, af engri merkjanlegri ástæðu, saga af því þegar hann grýtti bakaðri kartöflu í höfuð starfsmanns, þegar hann kastaði heftara í höfuð starfsmanns, kastaði kaffibolla í vegg sem skildi eftir dæld, kippti stól undan starfsmanni og rak hann síðan. Þegar hann, í reiðiskasti yfir því að starfsmaður hafði ráðið sig hjá öðru framleiðslufyrirtæki, sendi tölvupóst á eiganda þess og laug því að hún hefði stolið frá honum. Hann fór svo hratt í gegnum hluti eins og fartölvur og síma, sem oft lentu á veggjum, að sérstakur skápur var fylltur af auka-eintökum, ef ske kynni.

Sögurnar af því hvernig hann hann öskrar á undirmenn sína svo hrákinn slettist á andlit þeirra, og kallar þá öllum illum nöfnum, virðast næstum því ómerkilegar í samanburði við ítrekaðar líkamsárásir, en sú hegðun á ekki síður þátt í því að brjóta fólk niður og hrekja það úr bransanum. Sögurnar sem aðrir miðlar hafa birt í kjölfar afhjúpanna The Hollywood Reporter eru allar á sömu slóðum: Lýsa bræðisköstum, brotnum diskum og brotnu fólki sem óð eld og brennistein til þess að komast hjá því að verða fórnarlömb bræði yfirmanns síns.

Enn með peningamenn að baki sér

En til hvers leiða þessar sögur? Mál Rudins hefur ekki farið jafn hátt utan skemmtanabransans og mál Harveys Weinstein. Væntanlega þar sem eðli ofbeldisins er annað en einnig vegna þess að fórnarlömbin eru ekki heimsfrægar leikkonur, heldur ungt og óþekkt fólk. Innan iðnaðarins hefur málið þó vakið mikla reiði og Rudin kveðst vegna þessa munu stíga til hliðar og ekki taka virkan þátt í yfirstandandi verkefnum sínum á Broadway, í Hollywood og á West End. Í skriflegu svari til The New York Times sagðist hann miður sín vegna hegðunar sinnar og að hann myndi segja sig úr fagfélagi framleiðenda og leikhúseigenda á Broadway.

Í fyrri svörum til annarra miðla hafði hann, í gegnum talsmann sinn, viðurkennt reiðivandamál sitt á vinnustað, en einnig kallað nafnlausar frásagnir starfsfólks stórlega ýktar slúðursögur. Jafnvel hans mikilvægustu kollegar, fólkið sem fjármagnar myndirnar hans, virðist þó taka undir að eitthvað mikið þurfi að breytast, ef marka má umfjöllun New York Times. Þar kemur þó einnig fram að fjárfestarnir sem setja pening í stórar og fokdýrar Broadway-sýningar hans eru jafnvel enn frústreraðri yfir því hversu lítið þau fá fyrir sinn snúð. 

Mögulega verður umræðan innan iðnaðarins Rudin að falli. Mögulega endar hann einmitt sjálfur á eins konar svörtum lista þar sem enginn vill vinna fyrir hann eða með honum. En kannski eru það einmitt fjárfestarnir sem skipta þar mestu og þeir stærstu: Milljarðamæringarnir Barry Diller og David Geffen hafa enn ekki snúið við honum baki. Þeir ræddu báðir við The New York Times í síðustu viku.

„Ég hvorki samþykki né afsaka á nokkurn hátt hegðun tengda vinnu hans á hans persónulega vinnustað,“ segir Diller og bætir við að honum þyki „vinna hans utan hins persónulega vinnustaðar“ þó verðskulda “aðskilda og sérstaka íhugun.“ Geffen segir að Rudin glími við „geðræn vandamál sem hann þurfi að eiga við ef hann ætlar sér að vinna í framtíðinni.“

Og myndi Geffen vinna með honum aftur? 

„Ef hegðun hans breytist ekki myndi vera auðvelt að segja nei,“ segir hann, en bætir við: „Ég tel ekki þörf á dauðadómi ef hann fær þá hjálp sem hann þarf og þessi hegðun breytist.“

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Þessi saga er ekki bara um Harvey Weinstein“

Menningarefni

Áhrif sakfellingar Weinsteins

Kvikmyndir

„Ánægður að vera fjandans fógetinn í þessum skítabæ“