Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hvað myndum við gera ef nashyrningar gerðu innrás?

Mynd: Nashyrningarnir / Þjóðleikhúsið

Hvað myndum við gera ef nashyrningar gerðu innrás?

28.04.2021 - 09:28

Höfundar

Er leiksýningin Nashyrningarnir enn ein uppfærslan sem mætir of seint í partýið, spyr Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi, „til að velta vöngum yfir popúlisma í pólitík nútímans, vaxandi rasisma og jafnvel Donald Trump?“

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Nýverið frumsýndi Þjóðleikhúsið Nashyrningana í leikstjórn Benedikts Erlingssonar. Leikritið, eftir rúmenska leikskáldið Eugene Ionesco er frá árinu 1959 en það hlaut skjótt alþjóðlega frægð og var fyrst frumsýnt á Íslandi einungis tveimur árum síðar, 1961.

Í fyrstu kynni maður að halda að stóra spurningin í verki rúmenska leikskáldsins Eugene Ionesco, séu hvort asískir eða afrískir nashyrningar séu með eitt eða tvö horn. Skyndilega, að því er virðist upp úr þurru, birtist nashyrningur inn á kaffihúsi og veldur gífurlegum óskunda. En þrátt fyrir hörmungarnar eru persónurnar í fyrsta þætti verksins frekar uppteknar af því frá hvaða heimsálfu nashyrningarnir komi og hvort afbrigðið, það asíska eða afríska, hafi tvö eða eitt horn. Með öðrum orðum þá deila sögupersónurnar  um tittlingaskít á tímapunkti þegar heimur þeirra er í þann mund að hrynja. Absúrd en á sama tíma hversdagslegt, því meira að segja þegar efnahagskreppur, vírusar eða loftslagshamfarir eru yfirvofandi þá eyðum við okkar tíma mun frekar í að rífast yfir smámunum. Hver sagði hvað á Facebook eða Twitter og hvað meinti hann eða hún - sem er mjög skiljanlegt, því hver vill ræða nashyrninginn í herberginu í raun og veru?

Það sem leikritið spyr okkur að er hvað við myndum gera ef nashyrningar hæfu skyndilega innrás, og ekki bara innrás heldur væri fólk sjálfviljugt að gerast nashyrningar, finna jafnvel meiri tilgang og merkingu í því að vera nashyrningur heldur en maður. Ein vinsælasta leiðin til að skilja söguþráðinn í verkinu, ef það er æskilegt í raun að skilja absúrd-verk, er að skilja hann sem líkingu um uppgang fasismans, nokkuð sem Ionesco sjálfur upplifði. Sumir hafa viljað sjá í umbreytingunum persónur sem Ionesco sjálfur þekkti. Hann talaði um að hann hefði séð nemendur og prófessora sem hann leit mjög upp til í háskólanámi umbreytast í fasista þegar þeir gengu í rúmenska Járn-vörðinn svokallaða, og vissulega sjáum við í leikritinu þenkjandi fólk, hrokafullar en þó hugsandi einstaklinga sem koll af kolli ganga nashyrningnum á hönd. Verða ómannlegar.

Höfuðpersóna verksins heitir Lárus, það er þó ekki nafnið í upprunalegu frönsku útgáfu leikverksins heldur nýtt íslenskt nafn. Eins og leikstjórinn orðar það í leikskrá þá fannst leikhópnum æpandi skrýtið í samhenginu að nota framandleg, frönsk nöfn eins og Bérenger, Dudard og Daisy, og á endanum var ákveðið að nota nöfn leikara úr uppfærslunni 1961, og þar með er sögupersónan Bérenger nú Lárus, nefndur í höfuðið á Lárusi Pálssyni sem fór með hlutverkið þá. Þetta mætti líta á sem krúttlegan virðingarvott, og fáir leikstjórar eru eins nostalgískir fyrir gömlu íslensku leikhúsi og Benedikt, en þó er ekki beinlínis um íslenska staðfærslu að ræða heldur vísa búningar leikara og ýmsir sviðsmunir eins og baguette og rauðvín í nestiskörfu til Frakklands millistríðsáranna. Það er í það minnsta ekki beinlínis íslenskt samfélag sem blasir við á sviðinu.

Nafnabreytingin truflar þó ekki. Lárus er leikinn af Guðjóni Davíð Karlssyni, sem mér finnst hafa farið vaxandi sem leikari síðustu ár, hann allavega nýtur sín vel í þessu hlutverki og það væri gaman að sjá hann tækla stærri, dramatísk hlutverk á næstu árum. Á móti honum eru m.a. Hilmir Snær Guðnason í hlutverki Róberts góðvinar Lárusar, sem í fyrstu er hneykslaður á tilkomu nashyrninganna en umbreytist síðar með tilþrifum. Ilmur Kristjánsdóttir er í hlutverki Herdísar, sem mætti næstum lýsa sem ástar-viðfangi flestra karlpersóna í verkinu, þar með talið Lárusar, en Ilmur gerir vel með persónu sem má viðurkenna að er frekar þunnt skrifuð. Arnmundur Ernst Backman leikur Rúrik, helsta keppinaut Lárusar, sem er líka á vissan hátt bandamaður hans gegn brjálæðinu. Loks höfum við Hildi Völu Baldursdóttur, Pálma Gestsson, Hákon Jóhannesson sem átti einstaklega skemmtilega nærveru í sínu hlutverki rétt fyrir og eftir hlé, Sigríði Eyrúnu Friðriksdóttur, Siobhán Antoinette Henri, sem einnig var sviðsmaður en var með sínum framandi hreim skemmtilegt val í sitt hlutverk, Örn Árnason og síðast en ekki síst Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur sem var framúrskarandi í hlutverki rökfræðingsins, sem mig grunar að gæti verið byggður á, rökfræðikennara við háskólann í Búkarest þegar leikskáldið var þar í námi. Kennari þessi leiddist úr akademískum rökfræði vangaveltum yfir í öfgafulla hægripólitík um það leyti sem Ionesco yfirgaf heimaland sitt.

En vel á minnst með hægripólitíkina. Er þetta enn ein uppfærslan sem mætir of seint í partýið til að velta vöngum yfir popúlisma í pólitík nútímans, vaxandi rasisma og jafnvel Donald Trump?

Sem betur fer ekki. Sýningin snýst í raun mun frekar um Covid, í það minnsta er Covid mér sem áhorfanda það ofarlega í huga að nashyrninga-líkingin nær helst þangað. Á mjög stuttum tíma hefur hófsamt fólk umturnast í persónur sem vilja loka landamærum, banna mannamót, skemmtanir, skólahald, og sé maður á öndverðum meiði þá er maður ekki einu sinni lengur viss um hver missti vitið, maður sjálfur eða samfélagið. Þorpið í leikriti Ionesco og sýningu Benedikts, er samfélag sem bregst við einhverju sem lýsir sér eins og smitsjúkdómur, hegðun fólks gerbreytist og skoðanir skiptast mjög hratt, alveg eins og mörg okkar sveiflumst nú suma daga frá því að vilja loka öllu, þvinga grímur á alla, krefjast hárra refsinga, yfir í að vilja opna allt og gleyma öllu um vírusinn sem hefur snúið heiminum á hvolf. Einhvers konar tíska, einhvers konar nashyrnings-ismi er alltaf til staðar í samfélaginu þó svo nasistar séu ekki endilega á kreiki.

Vofa þjóðernishyggjunnar er til staðar í verkinu, sér í lagi í þeirri mynd sem er brugðið upp undir lokin, og ég er á báðum áttum með hana. Var þessi lokamynd full groddaleg? Var hún úr takti við restina af uppfærslunni, tók hún af áhorfandanum möguleika á ólíkum túlkunum eða bætti hún við nýjum víddum? Eftir dálitla umhugsun hallast ég að því að lágstemmdari endir hefði hæft sýningunni, en hér hætti ég mér á hina hálu braut gagnrýnandans sem lýsir sýningunni sem hann vill sjá en ekki þá sem hann er að fjalla um. Endirinn er allavega, án þess að meiningin sé að spilla fyrir, í anda zombí-bókmennta á borð við I am legend, þar sem manneskjan sjálf er skrímslið, en Nashyrningarnir eru þegar öllu er á botninn hvolft zombí-hryllingur skrifaður áður en uppvakninga-kvikmyndir gerðu hugmyndina almenna. Hugmyndin er þó sniðug, líkt og margar aðrar hugmyndir í útfærslunni, hvernig hléð og sýningin rennur saman, hvernig áhorfendasalurinn sjálfur er notaður er afskaplega spennandi og sniðugt, og sem áhorfanda líður manni virkilega eins og maður sé hluti af sýningunni, jafnvel hluti af nashyrningastóð. Mögulega var sýningin full sniðug í lokin.

Það er auðvitað ekki hægt að fjalla um uppfærslu á nashyrningunum án þess að ræða hvernig dýrin sjálf eru látin birtast á sviði. Það er ein skemmtilegasta áskorunin við verkið, því hún býður upp á ótal útgáfur, en framan af eru nashyrningarnir frekar raunsæislegir, en eftir því sem líður á verkið sjáum við meiri fjölbreytileika í þeim sviðsmunum og grímum sem notaðar eru sem táknmyndir þeirra. Þessi stigmögnun er mjög vel heppnuð, og nashyrningarnir eru bæði grótesk og heillandi í senn. Restin af leikmynd Barkar Jónssonar er svo ekki mikið fyrir augað, en upprunalegar leiklýsingar leikritsins gefa reyndar ekki endilega tilefni til mikillar veislu heldur, ef út í það er farið.

Á heildina litið er uppfærslan býsna vel heppnuð útgáfa af klassísku leikriti sem á alltaf erindi, en mögulega sérstaklega mikið erindi við samfélagið nú á dögum. Hún er hugsandi, ógnvænleg og hrikaleg, vitaskuld absúrd eins og lífið á dögum Covid, en fyrst og fremst er þetta sýning sem er sniðug og með húmor fyrir sér, óhrædd við að brjóta fjórða vegginn og afbyggja leikhúsið, og fá okkur til að velta vöngum yfir stóru spurningunni:

Eru nashyrningar frá Asíu eða Afríku, einhyrndir eða tvíhyrndir?

 

Tengdar fréttir

Leiklist

„Dönum finnst Íslendingar ekkert töff“