Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hagræn áhætta fólgin í hröðum afléttingum

Hagræn áhætta við afléttingar sóttvarnaaðgerða er fólgin í því að ef afléttingarnar eru of hraðar gæti þurft að skella í lás á ný. Þetta sagði Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands og prófessor við Háskóla Íslands, í viðtali í Kastljósi í kvöld. „Það mun hafa mjög slæm hagræn áhrif því það hefur þá ekki bara þau áhrif að útlendingarnir koma ekki, heldur líka þau að Íslendingar geta sig hvergi hreyft,“ sagði hann. 

Stíft aðhald á landamærum besta leiðin

Gylfi tekur undir með öðrum hagfræðingum um að besta leiðin, hagfræðilega, sé að tryggja stíft aðhald á landamærunum: „Það eru margir hagfræðingar sem hafa fært ágæt rök fyrir því að það sé besti leikurinn í stöðunni að hafa mjög stíft aðhald á landamærunum en leyfa innlenda hagkerfinu að blómstra að öðru leyti. Og ég tek alveg heils hugar undir þessi sjónarmið. Það virðist sem þeim löndum sem hefur gengið best, eins og í Nýja-Sjálandi, að þau hafa farið þessa leið. Auðvitað vissu menn það ekki fyrirfram en nú erum við komin með reynslu sem kannski segir okkur að það sé besta leiðin,“ segir Gylfi og vísar þá sennilega fyrst og fremst í ummæli kollega sinna, Gylfa Zoëga og Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur. 

Gylfi segir það mikið áhyggjuefni ef ferðaþjónustan nær ekki flugi þrátt fyrir hraðan gang í bólusetningum. „En því miður er nánast ómögulegt að spá fyrir um það hversu hratt ferðaþjónustan braggast. Það fer ekki bara eftir því hvernig gengur í bólusetningum og opnun landamæranna, heldur líka hvernig gengur í nágrannalöndunum og svo bara einfaldlega því hversu spennt fólk verður fyrir því að ferðast eftir faraldur. Við rennum eiginlega alveg blint í sjóinn með það, það verður bara að viðurkennast.“

Verulegur halli eðlilegur

En í fljótu bragði, hvaða leiðir sérð þú upp úr kreppunni?

„Það eru ýmsar leiðir færar. Við vorum tiltölulega fljót að ná okkur upp úr síðustu kreppu fyrir rúmum áratug og þar hjálpaði mikill vöxtur í ferðaþjónustunni. Það eru auðvitað ákveðnir hlutir sem geta gerst í öðrum atvinnugreinum sem hafa dregist saman en munu vonandi hressast hratt. Og svo getur ríkið reynt að örva hagkerfið með ýmsum aðgerðum. Það er auðvitað nauðsynlegt að fjármagna ríkisútgjöld fyrr eða síðar en núna hefði ég haldið að það væri eðlilegra að reyna að halda dampi, sem auðvitað kostar, með ríkisútgjöldum. Það verður þá auðvitað að fjármagna það með skammtímalánum. En það er eðlilegt í svona kreppu að ríkissjóður sé rekinn með verulegum halla sem menn svo bara greiða upp þegar betur árar. Það væri óeðlilegt að standa í miklum skattahækkunum til skamms tíma, en hugsanlega eftir nokkur ár.“

Halli hjúkrunarheimila til umræðu

Í Kastljósi var einnig rætt um þrönga rekstrarstöðu hjúkrunarheimila. Þau voru rekin með halla upp á 3,5 milljarð á þriggja ára tímabili og langstærsti útgjaldaliðurinn var greiðsla launa. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem var unnin af verkefnastjórn undir forystu Gylfa .

Hann segir augljóst að ekki sé hægt að standa undir umsvifum geirans með þeim fjárveitingum sem hann fær eins og er. „Og fjárveitingarnar koma að meira en 90 prósenta hlut frá ríkinu. Þannig að það er ekki hægt að horfa mikið annað en þangað. Það er svo allt annað mál hvernig menn vilja spila úr þessu til frambúðar, þá er hægt að gera fleira. Það er hægt að vera með fjölbreyttari úrræði, það er jafnvel hugsanlegt að íbúarnir sjálfir greiði meira þegar fram líða stundir og þeir munu hafa meiri tekjur vegna þess hvernig lífeyriskerfið mun þróast. Þannig að það er ýmislegt hægt að gera til langs tíma en vandinn, og allavega umsvifin, mun vaxa allverulega af augljósum lýðfræðilegum ástæðum.“

Myndi fagna heildarendurskoðun á málaflokknum

Er komið að því að það þurfi að fara fram heildarendurskoðun á þessum málaflokki?

„Já, ég myndi fagna því, það er margt sem er kannski ekki jafn vel skipulagt og það gæti verið. Það er núningur og það eru deilur um verkaskiptingu og kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga svo dæmi sé tekið. Málefnaflokkur aldraðra er að hluta á könnu ríkis og að hluta á könnu sveitarfélaga. Kannski væri hægt að hafa betri samræmingu þar á milli og jafnvel færa einhverja ákveðna þætti til sveitarfélaga eða til ríkisins frá hinum aðilanum.“

Langstærsti útgjaldaliður hjúkrunarheimila var launagreiðslur og launatengd gjöld, 77 prósent af heildarrekstrarkostnaði heimilanna. „Það hefur verið deilt um rekstrarkostnað hjúkrunarheimila mjög lengi en deilurnar hafa líklega sjaldan eða aldrei verið harðari en núna og ég held að það sé vegna þess að kostnaður hefur rokið upp og það eru langhelst launagreiðslur sem hafa rokið upp. Það er svo sem eðlilegt upp að ákveðnu marki því þetta er mjög mannaflafrek þjónusta og hún reiðir sig mjög á ófaglært verkafólk sem hefur tiltölulega lág laun að jafnaði en náði talsverðri launahækkun í samningum í fyrra. Það veldur auknum kostnaði og menn eru að horfast í augu við það núna að einhver þarf að greiða þann reikning,“ segir Gylfi.