Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Erfiður ágreiningur innan finnsku ríkisstjórnarinnar

28.04.2021 - 05:54
epa08060224 Finland's new ministers (L-R) Li Andersson Minister of Education, Maria Ohisalo Minister of the Interior, Prime Minister Sanna Marin, Katri Kulmuni Minister of Finance and Thomas Blomqvist Minister for Nordic Cooperation and Equality speak at press conference in Helsinki, Finland, 10 December 2019.  EPA-EFE/KIMMO BRANDT
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands og formaður Jafnaðarmanna, og Katri Kulmuni fjármálaráðherra og fyrrverandi formaður Miðflokksins Mynd: EPA-EFE - Compix
Leiðtogar finnsku ríkisstjórnarflokkanna hafa nú setið að samningum um framhald stjórnarsamstarfsins í heila viku, árangurslaust. Samningaviðræður halda áfram í dag, áttunda daginn í röð, og finnskir stjórnmálaskýrendur eru sammála um að brugðið geti til beggja vona. Greint hefur verið frá því í finnskum fjölmiðlum að formaður Miðflokksins hafi hótað stjórnarslitum, en forsætisráðherrann kannast ekki við neinar slíkar hótanir.

Ágreiningur um efnahagsaðgerðir og fjármögnun þeirra

Forysta stjórnarflokkanna fimm; Jafnaðarmanna, Miðflokksins, Vinstriflokksins, Græningja og Sænska þjóðarflokksins, hugðist leysa úr ágreiningsmálum sínum í tveggja daga viðræðum, en sá tími dugði hvergi nærri til.

Einkum er tekist á um efnahagsaðgerðir næstu ára til að koma landinu út úr COVID-kreppunni og fjármögnun þeirra aðgerða, ekki síst um hversu langt ríkissjóður eigi og megi teygja sig í lántökum í þessu skyni. Þar vilja flokkarnir sem eru lengst til vinstri  ganga lengra en hinir, sem nær eru miðjunni og jafnvel aðeins hægra megin við hana.

Snúin og erfið staða

Stjórnmálaskýrendur eru á einu máli um að staðan sé snúin í viðræðum flokkanna og ágreiningurinn alvarlegur. Þá greinir hins vegar á um hversu alvarlegur hann sé og hversu líklegt sé að hann leiði til stjórnarslita.

Núverandi ríkisstjórn tók við völdum af sjálfri sér, ef svo má að orði komast, í desember 2019. Þá krafðist Miðflokkurinn þess að forsætisráðherrann, jafnaðarmaðurinn Antti Rinne, segði af sér vegna framgöngu hans í tengslum við vinnudeilu hjá finnsku póstþjónustinni. Það varð úr og flokkssystir hans, Sanna Marin, tók við forsætisráðuneytinu.

Sömu flokkar sitja enn í stjórninni, að mestu í sömu ráðuneytum, þegar tvö ár lifa af kjörtímabilinu, og aftur er það Miðflokkurinn, samkvæmt finnska ríkisútvarpinu YLE, sem gerir mestan ágreining við forsætisráðherra Jafnaðarmanna. Fram hafa komið fullyrðingar um að Annika Saarikko, formaður Miðflokksins, hafi hótað stjórnarslitum, en Marin kannast ekki við neinar slíkar hótanir. 

Lítil hefð fyrir stjórnarslitum og ótímabærum kosningum

Þær Johanna Vuerelma og Hanna Wass, stjórnmálafræðingar sem rætt er við í Helsingin Sanomat, segja það ekki koma á óvart að flokkana greini á um leiðir út úr kreppunni og fjármögnun þeirra. Heimsfaraldurinn hafi haldið stjórninni saman - og samhentri - en nú þegar sá róður sé tekinn að léttast fari munurinn á hugmyndafræði flokkanna aftur að vega þyngra.

Þær eru sammála um að enginn stjórnarflokkanna fimm vilji í raun slíta stjórnarsamstarfinu. Lítil hefð er fyrir því í Finnlandi að rjúfa þing og efna til kosninga á miðju kjörtímabili, það gerðist síðast árið 1982. Því verði eflaust reynt til þrautar að ná sáttum á stjórnarheimilinu.