Áhrif sérhagsmunaafla raunverulegt vandamál á Íslandi

Íslandi er að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum, sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali við Stundina á dögunum. Undir þetta tekur Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands og prófessor við Háskóla Íslands, í Kastljósi í kvöld.

„Já, það er enginn ágreiningur milli mín og Ásgeirs um þetta. En auðvitað er það ekkert nýtt að sérhagsmunaöfl reyni að ota sínum tota í kerfinu og ekki heldur séríslenskt. En það er ekki þar með sagt að við eigum að sætta okkur við þetta. Þetta er raunverulegt vandamál og við þurfum að vera vakandi og passa okkur og láta ekki sérhagsmunaöflin sigra alltaf. Við höfum tilhneigingu til þess því þau eru oftast mun einbeittari heldur en þeir sem eru að verja hina dreifðu almennu hagsmuni, og oft miklir fjármunir undir sem menn geta lagt í að fá breytingar á regluverki í gegn sem þjónar hagsmunum eins hóps en ekki hins breiða fjölda,“ segir Gylfi.

Deilur um fiskveiðistjórnunarkerfið harkaleg sérhagsmunabarátta

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í ræðustól Alþingis fyrr í vikunni að hefði hún sjálf tekið umrætt viðtal við Ásgeir Jónsson hefði hún beðið um dæmi um hagsmunahópa sem hefðu mikil völd. Gylfi nefnir dæmi: 

„Það er auðvitað erfitt að telja þá alla upp en það er auðvitað ekki hægt annað en að horfa sérstaklega til deilnanna um fiskveiðistjórnunarkerfið og útgerðarinnar, og deilnanna um auðlindagjaldið. Það er auðvitað mjög skýrt dæmi um mjög harkalega sérhagsmunabaráttu. Og það væri þá kannski fyrsta dæmið sem kæmi upp í hugann, en auðvitað eru þau miklu fleiri.“ 

Sterkir fjölmiðlar mikilvægir

Hvað er til ráða og hvernig er hægt að ráðast gegn þessu?

„Það er í raun og veru ævilangt viðfangsefni fyrir lýðræðiskerfi, en það er ýmislegt sem hjálpar. Og opið og gagnsætt þjóðfélag með sterkum fjölmiðlum getur gert það erfiðara fyrir sérhagsmunahópa að komast upp með sitt í skjóli þess að aðrir frétti ekki af því. Það getur skipt máli og svo auðvitað sterkt lýðræðiskerfi og vandað dómskerfi. Þetta eru allt þættir sem eru kannski ágætir hér á Íslandi samanborið við það sem verst gerist í heiminum en við höfum áhyggjur af því að við séum dragast aftur úr til dæmis hinum Norðurlöndunum hvað varðar fjölmiðlafrelsi og jafnvel styrk lýðræðisins.“

Erfitt fyrir bankann að verja einstaka starfsmenn

Í viðtalinu gagnrýnir Ásgeir harðlega atlögu Samherja að starfsmönnum Seðlabankans en útgerðarfélagið kærði fimm starfsmenn bankans í tengslum við rannsókn á meintu broti Samherja á lögum um gjaldeyrismál. Í þeirri stöðu, er bankinn varnarlaus?

„Það er auðvitað mjög erfitt fyrir bankann að verja einstaka starfsmenn, það er miklu auðveldara að verjast því sem má kallast gagnrýni á bankann sjálfan. En þegar verið er að tala um millistjórnendur eða lægra sett fólk sem er kært eða verður fyrir harkalegri gagnrýni í fjölmiðlum, þá er miklu erfiðara fyrir stofnun eins og Seðlabankann að bregða upp skildi fyrir þeim atlögum.“

Óboðlegt að leggja heiður starfsmanna undir

Er þetta ákall til löggjafans?

„Já, Ásgeir hefur talað á þeim nótum og mér þætti sjálfsagt að það yrði skoðað. Það er auðvitað þannig að þeir sem starfa fyrir umdeildar stofnanir, og Seðlabankinn er dæmi um það en það er hægt að nefna fleiri eins og Samkeppniseftirlitið og margt fleira, þeir eiga að geta unnið sína vinnu í friði. En ef menn eru óánægðir með niðurstöðurnar, viðskiptavinir ef við orðum það þannig, þá eiga þeir auðvitað að geta leitað til dómstóla og hnekkt einhverjum niðurstöðum. Þeir eiga ekki að verjast stofnun eins og Seðlabankanum með því að leggja heiður einstakra starfsmanna undir. Það er algjörlega óboðlegt.“

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV